Stefnan sett á úrslitakeppnina

Sólveig Lára Kristjánsdóttir.
Sólveig Lára Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Þórir Ó.Tryggvason

„Ég veit ekki hvort ég teljist vera bjargvættur þótt það hafi komið í minn hlut að skora sigurmörkin í tveimur síðustu leikjum. Sigrarnir eru liðsheildarinnar. Engin einn vinnur handboltaleiki,“ sagði handknattleikskonan og lögregluneminn Sólveig Lára Kristjánsdóttir við Morgunblaðið í gær.

Sólveig hefur skorað sigurmörk KA/Þórs í tveimur síðustu leikjum, 29:28, gegn Selfossi í 15. umferð og með sömu markatölu HK í Digranesi í fyrrakvöld í 16. umferð Olís-deildarinnar í handknattleik. Báðir leikir voru á útivelli.

„Sigurmarkið gegn Selfossi kom þegar hálf mínúta var eftir og þegar tíu sekúndur voru til leiksloka á móti HK. Jafnari verða leikirnir varla,“ sagði Sólveig Lára og bendir á að úrslit leikjanna tveggja undirstriki hversu jöfn Olís-deild kvenna er í raun og veru. „Deildin er afar jöfn og skemmtileg. Segja má að allir geti í raun unnið alla. Dagsformið ræður oft hvort liðið ber sigur út býtum,“ sagði Sólveig Lára.

Að loknum fjórum sigurleikjum, einu jafntefli og einu tapi eftir að keppni hófst á ný í deildinni í byrjun árs er lið KA/Þórs komið í þá stöðu að vera jafnt ÍBV að stigum í fjórða til fimmta sæti. Framundan er hörkukeppni á milli liðanna í lokaumferðunum um sæti í úrslitakeppninni en í henni öðlast sæti fjögur efstu liðin þátttökurétt að deildarkeppninni lokinni.

„Auðvitað væri það draumur að komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn verandi á fyrsta ári með liðinu í Olís-deildinni. Það er mikið eftir af keppninni ennþá, sex umferðir auk bikarkeppninnar. Við höldum bara okkar striki við að bæta okkar leik og koma þar af leiðandi betur og betur búnar til leiks,“ sagði Sólveg Lára.

Sjá allt viðtalið við Sólveigu og úrvalslið 16. umferðar í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert