Ætluðum í fimmta leikinn

Karen Helga Díönudóttir sækir að marki Vals í öðrum leik …
Karen Helga Díönudóttir sækir að marki Vals í öðrum leik liðanna á Ásvöllum. mbl.is/Eggert

„Það er ekki laust við smá pirring hjá manni eftir þetta tap því við köstum þessu algjörlega frá okkur undir restina,“ sagði Karen Helga Díönudóttir, leikstjórnandi Hauka, í samtali við mbl.is eftir 25:22-tap liðsins gegn Val í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld en Haukar töpuðu einvíginu 3:0.

„Það er erfitt koma orðum að því, hvað fer úrskeiðis hjá okkur. Við gefum eftir undir restina og þær eru með það gott lið að þær refsa grimmilega. Við gáfum þeim tækifæri á að koma sér aftur inn í leikinn sem þær nýttu sér heldur betur. Að sama skapi eiga þær þetta skilið að vera komnar í úrslitin og þær eru með þrusulið.

Haukar náðu tveggja marka forskoti þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Valskonur jöfnuðu metin þegar tíu mínútur voru eftir og þá virtist allur vindur úr Haukaliðinu.

„Mér fannst við vera einu skrefi frá þessu í kvöld. Í hinum tveimur leikjunum höfum við átt góða kafla en svo aðeins misst hausinn í tíu mínútur og því fór sem fór. Við höfum tekið framförum í hverjum einasta leik sem við höfum spilað á móti þeim sem gerir þetta í raun enn þá meira svekkjandi.“

Karen viðurkennir að það sé ákveðið svekkelsi að vera komin í sumarfrí en liðið ætlaði sér stærri hluti í einvíginu gegn Val.

„Við ætluðum að taka þennan leik í kvöld og klára þær svo í fimmta leiknum en staðreyndin er einfaldlega sú að við erum komnar í sumarfrí sem er mikið svekkelsi,“ sagði Karen Helga í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert