Eru auðvitað vonbrigði

Einar Andri Einarsson þjálfari U21 árs landsliðsins.
Einar Andri Einarsson þjálfari U21 árs landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru auðvitað vonbrigði að þessir leikmenn gefa ekki kost á sér í þetta verkefni en þá fá bara aðrir menn tækifæri,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari U21 árs landsliðs karla í handknattleik sem er að undirbúa sig undir þáttöku á heimsmeistaramótinu sem haldið verður á Spáni dagana 16.-28. júlí.

Einar er búinn að velja hópinn ásamt Sigursteini Arndal aðstoðarmanni sínum. Athygli vekur að A-landsliðsmenn­irn­ir Hauk­ur Þrast­ar­son úr Íslands­meist­araliði Sel­fyss­inga og Teit­ur Örn Ein­ars­son, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, gefa ekki kost á sér í verk­efnið sem og þeir Sveinn Andri Sveins­son og Arn­ar Freyr Guðmunds­son sem báðir leika með ÍR-ingum.

Spurður hvers vegna þessir leikmenn hafi ekki gefið kost á sér sagði Einar Andri;

„Ég held að það sé best að þeir svari sjálfir fyrir það. Haukur og Teitur voru í verkefni með A-landsliðinu þegar hópurinn var valinn. Ég reiknaði með því að þeir myndu í kjölfarið koma í undirbúninginn með okkur en svo varð ekki. Vissulega er eftirsjá í góðum leikmönnum sem gefa ekki kost á sér og eins að þeir Sveinn Jó­hanns­son og Birg­ir Már Birg­iss­son geta ekki verið með okkur vegna meiðsla en þá fá bara aðrir leikmenn tækifæri. Við erum með góðan hóp sem við höfum valið en ég neita því ekki að við hefðum viljað hafa alla með,“ sagði Einar Andri við mbl.is.

„Við erum á leiðinni á gríðarlega sterkt mót þar sem við mætum virkilega góðum liðum. Við erum klárlega í sterkasta riðlinum með Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Síle og Argentínu og það verður gaman fyrir strákana að glíma við þessi lið,“ sagði Einar Andri.

mbl.is