Menn höfðu virkilega trú á þessu

Einar Andri Einarsson var að vonum afar sáttur eftir sigur …
Einar Andri Einarsson var að vonum afar sáttur eftir sigur sinna manna í Vestmannaeyjum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var í skýjunum eftir sigur á útivelli gegn ÍBV þegar liðin áttust við í 6. umferð Olísdeildar karla. Guðmundur Árni Ólafsson skoraði sigurmark gestanna þegar mínúta var eftir.

„Ég get ekki verið annað en himinlifandi, við vorum í basli frá og með miðjum fyrri hálfleik og þangað til seinni hálfleikur var hálfnaður. Við náðum að snúa þessu við með miklum karakter, frábærri vörn og markvörslu,“ sagði Einar Andri og laug engu því karakter Mosfellinga var frábær og liðsheildin mikil. Vörn gestanna lokaði gjörsamlega á öll vopn ÍBV undir lokin og Arnór Freyr Stefánsson varði vel í markinu.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur og lentu Mosfellingar í nokkrum slæmum köflum framan af sem gerðu það að verkum að ÍBV leiddi á tímabili með fimm mörkum og fjórum í hálfleik.

„Við byrjuðum vel fannst mér en eins og ég sagði í hálfleik þá fórum við að spila handbolta sóknarlega í takt við trommusláttin og kætina í höllinni. Það er eitthvað sem maður vill forðast hérna, mér fannst við flýta okkur of mikið, þetta voru sjö eða átta tapaðir boltar og þrjú vítaklikk. Það var margt sem við gátum lagað fyrir seinni hálfleikinn og við gerðum það.“

Aðspurður hvort gestirnir hafi nýtt pirring Eyjamanna á lokakaflanum var Einar ekki viss.

„Mér fannst við bara halda haus, við erum búnir að vera í jöfnum leikjum á tímabilinu sem við höfum náð að klára, mér fannst sjálfstraustið vera mikið þegar það var jafnt og sjö mínútur eftir. Mér fannst menn virkilega hafa trú á þessu,“ sagði Einar en ÍBV-menn hafa verið sterkir heima fyrir síðustu ár, hafa þó tapað tveimur síðustu heimaleikjum, í kvöld og gegn Selfossi í síðustu viku. Hver er lykillinn að því að vinna ÍBV á útivelli?

„Þetta er eiginlega eina höllin þar sem eru einhverjar aðstæður, það eru mikil læti og stemning, þú þarft að útiloka það. Þeir eru síðan með frábært lið, maður þarf bara að spila þroskaðan handbolta, langar sóknir, því að þessi 5-1 vörn er mjög erfið að því leyti að ef þú ert með tæpar sendingar tapar þú boltum. Agi, skipulag og hugarfar þarf að vera í lagi.“

Leikmenn Aftureldingar skoruðu grimmt úr hornunum í upphafi leiks, var það uppleggið?

„Hornin opnast mikið í 5-1 vörninni þegar menn setja upp í þannig stöður, við vorum að fá fín hornafæri upp úr því. Mér fannst við ekki ná að opna hornin í grunninn en hægra hornið var að opnast vel. Mér fannst við ekki sækja nógu vel í breiddina og utanvert á heildina litið.“

Karolis Stropus átti flottan leik í kvöld og skoraði úr öllum sínum fimm skotum, hann valdi skotin vel og mörg þeirra voru á mikilvægum augnablikum leiksins eftir langar sóknir.

„Það hefur mikil ábyrgð hvílt á honum í varnarleiknum af því að Böðvar hefur ekkert spilað með okkur enn þá, hann er virkilega öflugur leikmaður sem á eftir að hjálpa okkur mikið. Hann er mikill professional leikmaður, mjög sterkur.“

Afturelding mætti aðeins með 10 útileikmenn í dag en Einar segir að flugvélin hafi ekki boðið upp á að fleiri útileikmenn kæmu með.

„Það voru ekki fleiri flugsæti því miður,“ sagði Einar en þeir leikmenn sem komu með til Eyja fengu flestir að spila og það nokkuð stórt hlutverk. Liðið byrjaði strax að rótera leikmönnum, til að mynda í vinstri skyttunni, horninu og á línunni, allt í fyrri hálfleik.

„Við erum með sterkan hóp þrátt fyrir að við séum búnir að missa Gest út og eigum Böðvar inni, við erum með öfluga stráka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert