Það var slegið í höndina á mér

Þórhildur Braga Þórðardóttir
Þórhildur Braga Þórðardóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég er ótrúlega svekkt. Þetta var spennandi leikur og tvö jöfn lið en mér fannst við eiga tvö stig skilið úr þessum leik,“ sagði Þórhildur Braga Þórðardóttir, leikmaður Hauka, eftir 22:22-jafntefli við Stjörnuna í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. 

Þórhildur missti boltann í lokasókn Hauka í leiknum er liðið gat skorað sigurmark. Brotið var á Þórhildi en dómararnir dæmdu ekki neitt. 

„Það var slegið í höndina á mér en þeir sögðust ekki hafa séð það,“ sagði Þórhildur sem var ánægð með seinni hálfleikinn yfir höfuð. „Sóknarleikurinn gekk mikið betur yfir höfuð á meðan við náðum ekki tempói á boltann í fyrri hálfleik. Það var meira flot á okkur og við vorum ákveðnari að fara einn á einn í seinni hálfleik.“

Haukar töpuðu fjórum fyrstu leikjum sínum en hafa aðeins tapað einum í síðustu fjórum. 

„Mér fannst við mikið betri en við höfum verið að sýna í hinum leikjunum. Við erum með rosalega sterkt lið og við verðum að halda þessu áfram. Ég og Hekla erum komnar inn eftir meiðsli og við erum að slípa okkur betur saman,“ sagði Þórhildur. 

mbl.is