ÍR færðist upp í fjórða sæti

Frá viðureign ÍR og ÍBV í dag.
Frá viðureign ÍR og ÍBV í dag. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR-ingar færðust upp í annað sæti Olís-deildar karla í handknattleik, að minnsta kosti að sinni, eftir fimm marka sigur á ÍBV, 32:27, í íþróttahúsinu Austurbergi í dag í níundu umferð.  Sigurinn var ÍR-ingum kærkominn eftir þrjá tapleiki í röð. Eyjamenn eru hinsvegar í erfiðleikum vegna meiðsla marga leikmanna. Þeir sitja í sjötta sæti með níu stig eftir níu leiki og hafa aðeins fengið eitt stig í undanförnum fimm leikjum.

Vængbrotið lið ÍBV hóf leikinn betur en heimamenn í ÍR og var með yfirhöndina framan af.  Í fjarveru Fannars Þórs Friðgeirssonar léku þeir Róbert Sigurðarson og Ívar Logi Styrmisson til skiptis í stöðu skyttu vinstra megin. Róbert er nú ekki vanur að hafa sig mikið í frammi  í sóknarleik. En einhvernvegin urðu Eyjamenn að leysa úr þeirri stöðu sem var uppkomin vegna ökklameiðsla Fannars Þórs Friðgeirssonar eftir síðasta leik. Eins var Theodór Sigurbjörnsson fjarri góðu gamni í liði ÍBV. Erfiðleikar Eyjamenn voru fleiri í fyrri hálfleik. Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður ÍR-inga, varði allt hvað af tók, ekki síst skot frá stórskyttunni og nýbökuðum landsliðsmanni Kristjáni Erni Kristjánssyni. Alls varði Sigurður 12 skot í fyrri hálfleik og var með nærri 50 % hlutfallsmarkvörslu.

Sóknarleikur ÍBV var þar af leiðandi ekki eins og besta verður á kosið. Reyndar verður svipað sagt um sóknarleik ÍR-inga í fyrri hálfleik þótt þeir hafi haft fullskipað lið.  Mörg einföld mistök sáust, ekki síst framan af þegar ÍR-liðið reyndi að leika með sjö menn í sókn. Sú tilraun gafst illa enda sjöundi maðurinn oft aðgerðarlítill nærri hliðalínu og virtist hafa meiri áhyggur af því hvenær hann ætti að skipta við markvörð sinn en hvernig hann ætti að raska ró varnarmanna ÍBV.

ÍR-ingar sigu fram úr þegar á fyrri hálfleikinn leið. Þeir náðu að keyra upp hraðann og nýta sér frábæran leik Sigurðar markvarðar. Þegar flautað var til hálfleiks var forskot ÍR tvö mörk, 15:13, gegn vængbrotnum Eyjamönnum.

ÍR-ingar voru með yfirhöndina framan af síðari hálfleik. Þeir voru hinsvegar sjálfum sér verstir að ná ekki að hrista Eyjamenn af sér. Óvandaður sóknarleikur  hafði þar mikið að segja. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka voru heimamenn tveimur mörkum yfir, 25:23, eftir að Björgvin Þór Hólmgeirsson hafði haldið uppi sóknarleiknum um skeið. Hann hélt uppteknum hætti ásamt Sturlu Ásgeirssyni. Saman bættu þeir félagar við forskotið með mörkum eða línusendingum á samherja sína. ÍR náði fimm marka forskoti fimm mínútum fyrir leikslok, 30:25.  Þessu forskoti hélt ÍR-liðið til leiksloka.

Björgvin Þór, Sturla og Sigurður voru yfirburðarmenn í liði ÍR að þessu sinni. Þeir báru liðið uppi.

Vopnabúr ÍBV er orðið rýrt vegna meiðsla marga leikmanna. Það varð ekki síst ljóst þegar á leikinn leið. Bitið vantaði í sóknina en ekki síður í vörninni.

Björgvin Þór skoraði 11 mörk fyrir ÍR og Sturla níu.  Sigurður Ingiberg varði 20 skot í marki liðsins og reyndist Eyjamönnum erfiður. 

Kristján Örn Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir ÍBV og var markahæstur þrátt fyrir að eiga á löngum köflum  í erfiðleikum gegn Sigurði markverði ÍR. Elliði Snær skoraði fimm sinnum. Petar Jokanovic varði 17 skot í marki ÍBV.

ÍR 32:27 ÍBV opna loka
60. mín. Petar Jokanovic (ÍBV) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert