Enginn átti von á stórsigri gegn Bregenz í Austurríki

Hreiðar Levý Guðmundsson átti flottan leik í marki Valsmanna í …
Hreiðar Levý Guðmundsson átti flottan leik í marki Valsmanna í gær. mbl.is/Hari

Valsmenn eru komnir áfram í fjórðu umferð Áskorendabikars Evrópu í handknattleik eftir samanlagðan tíu marka sigur gegn austurríska efstudeildarliðinu Bregenz en báðir leikirnir fóru fram í Rieden Vorkloster-höllinni í Bregenz í Austurríki.

Fyrri leik liðanna, hinn 16. nóvember, lauk með 31:31-jafntefli en Valsmenn keyrðu yfir austurríska liðið í seinni leiknum sem fram fór í gær og urðu lokatölur leiksins 31:21, Valsmönnum í vil.

Hreiðar Levy Guðmundson átti stórleik í marki Valsmanna í seinni leiknum og varði alls sextán skot. Hann var afar sáttur við frammistöðu liðsins í leikjunum í Austurríki og telur að í leikjunum tveimur hafi Valsmenn sýnt sína bestu frammistöðu á tímabilinu til þessa. „Ég er ótrúlega ánægður með karakterinn, liðið og spilamennskuna í heild, sérstaklega í seinni leiknum,“ sagði Hreiðar í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við vorum búnir að fara vel yfir þá og það var í raun ekkert í þeirra leik sem kom okkur þannig séð á óvart. Það kom hins vegar á óvart að við skyldum vinna þá með tíu mörkum í seinni leiknum. Þeir virkuðu hálfþreyttir í dag (gær) og við nýttum okkur það bara mjög vel. Við keyrðum vel á þá og refsuðum þeim grimmilega. Þessir tveir leikir okkar gegn þeim voru að mínu mati okkar besta frammistaða til þessa á tímabilinu og vonandi getum við byggt ofan á hana. Við markmennirnir stóðum okkur ekki nægilega vel í fyrri leiknum en við áttum mjög flottan leik í dag (í gær).“

Staðráðinn í að stíga upp

Hreiðar var ósáttur við sína frammistöðu í fyrri leiknum þar sem hann varði tíu skot og var hann staðráðinn í að gera mun betur í seinni leiknum sem hann og gerði en markvarslan var það sem skildi liðin að í tíu marga sigri Valsmanna í gær.

„Þeir skutu dálítið eftir plani, bæði í fyrri leiknum sem og í þeim seinni. Þetta eru góðir skotmenn og það er öðruvísi hraði á skotunum hjá þeim. Þetta eru öðruvísi skyttur en heima á Íslandi en þetta snerist fyrst og fremst um sjálfan mig og ég var í raun staðráðinn í að gera betur í seinni leiknum. Ég tók aðeins á mig þetta jafntefli í fyrri leiknum því strákarnir stóðu sig frábærlega. Ég sagði þeim eftir fyrri leikinn að ef ég og Danni verðum sjö til tíu skot í viðbót myndum við fara áfram úr einvíginu og það gekk eftir. Þetta er sterkt lið sem væri að berjast í efri hluta íslensku úrvalsdeildarinnar. Þetta væri topp-fjórir- topp-fimm-lið heima á Íslandi. Ég bjóst við hörkuleik gegn þeim í dag (gær) og það bjóst enginn við því að klára þá svona sannfærandi, hvað þá í fyrri hálfleik.“

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »