Ungt og hávaxið lið sem mætir Íslandi í dag

Zsolt Balogh hefur verið í lykilhlutverki hjá Ungverjum í fyrstu …
Zsolt Balogh hefur verið í lykilhlutverki hjá Ungverjum í fyrstu leikjunum. AFP

Ungverjar tefla fram ungu liði á Evrópumóti karla í handknattleik en í liðinu sem mætir Íslandi í Malmö í dag eru tólf leikmenn af sextán 24 ára eða yngri.

Langreyndasti leikmaður liðsins og sá eini sem hefur spilað meira en 70 landsleiki er Roland Mikler, markvörður Pick Szeged, sem spilar sinn 203. landsleik í dag. Hann er fimm árum eldri en næstu menn, 35 ára að aldri. Mikler hefur eytt síðustu tíu árum hjá stórveldunum í Ungverjalandi, en hann var í fimm ár hjá Veszprém áður en hann sneri aftur til Pick Szeged síðasta sumar, þar sem hann er samherji Stefáns Rafns Sigurmannssonar.

Næstelstur í liðinu er hin þrítuga skytta Zsolt Balogh, leikmaður Tatabánya, en hann hefur leikið mjög vel á mótinu til þessa.

Tólf af sextán leikmönnum liðisins leika með ungverskum liðum og athyglisvert er að aðeins fjórir þeirra eru röðum stórveldanna Pick Szeged og Veszprém. Flestir leikmannanna koma frá Tatabánya, fjórir talsins. Aðeins einn í hópnum leikur í Þýskalandi en skyttan Donát Bartók er samherji Bjarka Más Elíssonar hjá Lemgo. Þá eru tveir á Spáni og einn í Póllandi.

Zoltan Szita, 21 árs gamall leikmaður Wisla Plock í Póllandi, …
Zoltan Szita, 21 árs gamall leikmaður Wisla Plock í Póllandi, fagnar marki fyrir Ungverja gegn Dönum. AFP

Ungverska liðið er hávaxið en fjórir leikmannanna eru hærri en 2 metrar. Þeirra stærstur er Bence Bánhiti, línumaður frá Pick Szeged, en hann er 2,04 metrar á hæð.

Þjálfari Ungverja er István Gulyás, sem sjálfur lék 84 leiki með ungverska landsliðinu á síðasta áratug 20. aldarinnar og var kjörinn handknattleiksmaður ársins í landinu árið 1995. Hann hefur þjálfað ungversk lið félagslið frá 2011 en tók við landsliðinu á síðasta ári. Aðstoðarþjálfari er Chema Rodríguez, landsliðsmaður Spánar um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert