Leituðu ekki langt að arftakanum

Guillaume Gille á fréttamannafundi þar sem ráðning hans var tilkynnt.
Guillaume Gille á fréttamannafundi þar sem ráðning hans var tilkynnt. AFP

Franska handknattleikssambandið sagði á dögunum Didier Dinart upp störfum sem þjálfara karlalandsliðs þjóðarinnar eftir óvæntar hrakfarir liðsins á EM í þessum mánuði þar sem liðið tapaði fyrir Portúgal og Noregi og komst ekki í milliriðilinn í Malmö.

Leitin að arftaka hans tók ekki langan tíma og ekki var leitað langt. Aðstoðarmaður Dinarts og samherji í franska landsliðinu um árabil, Guillaume Gille, var ráðinn í staðinn.

Fyrsta verkefni Gille er undankeppni Ólympíuleikanna. Frakkar eru þar á heimavelli í sínum riðli en hann er sá erfiðasti í undankeppninni því mótherjar eru Króatía, Portúgal og Túnis. Tvö liðanna vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.

Gille er 43 ára gamall og varð tvisvar heimsmeistari, tvisvar Evrópumeistari og tvisvar ólympíumeistari með franska landsliðinu á árunum 2001 til 2012. Hann skoraði 658 mörk í 276 landsleikjum fyrir Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert