Valsarinn samdi við Ljónin

Ýmir Örn Gíslason hefur samið við eitt öflugasta félagslið Þýskalands.
Ýmir Örn Gíslason hefur samið við eitt öflugasta félagslið Þýskalands. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Vals, hefur samið við þýska 1. deildarfélagið Rhein-Neckar Löwen en þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Vísis.is.

Ýmir, sem er 22 ára gamall og öflugur varnarmaður, skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við þýska félagið en Ýmir heldur utan á morgun og verður kynntur til leiks hjá félaginu annað kvöld þegar Ljónin taka á móti Melsungen í þýsku 1. deildinni.

„Þetta kom upp rétt fyrir helgi,“ sagði Ýmir í samtali við Stöð 2. „Hlutirnir hafa gengið hratt fyrir sig og ég er mjög ánægður með þetta frábæra tækifæri. Þetta er risastór klúbbur með frábæra leikmenn og frábæran þjálfara.“

„Það er í raun bara allt stórt við þetta félag og ég er fyrst og fremst spenntur fyrir því að fá tækifæri til þess að spila fyrir þetta félag,“ bætti línumaðurinn við. Ýmir á að baki 40 A-landsleiki frá árinu 2017 en hann hefur verið fastamaður í liði Vals frá árinu 2014.

Ýmir verður þriðji Íslendingurinn í herbúðum Rhein-Necker Löwen sem er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar. Kristján Andrésson er þjálfari liðsins og þá er landsliðsmaðurinn Alexander Petersson samningsbundinn félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert