Vorum duglegir að refsa þeim

Hákon Daði Styrmisson skýtur að marki Hauka í Vestmannaeyjum í …
Hákon Daði Styrmisson skýtur að marki Hauka í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu öruggan átta marka sigur á Haukum í dag þegar liðin mættust í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Eyjamanna, var virkilega ánægður með sigurinn en sóknarlega voru Eyjamenn magnaðir.

„Ég vissi ekkert hverju ég átti að búast við, ég hafði góða tilfinningu fyrir leiknum og taldi okkur vera með gott plan til þess að vinna þá, sem betur fer gekk það eftir,“ sagði Kristinn, aðspurður hvort hann hefði búist við átta marka sigri þegar hann vaknaði í morgun.

Eyjamenn stungu af eftir að jafnt var í stöðunni 5:5.

„Við náum að loka aðeins á vörnina, bæði lið skiptust á að skora, þetta var eins og tennis til að byrja með. Okkur tókst að verjast þeim á tímabili og ná ódýrum mörkum í bakið á þeim, það má segja að við höfum náð að loka vörninni en þeir ekki,“ sagði Kristinn en hann vildi meina að það hafi skapað sigurinn.

„Algjörlega, frammistaða varnarmanna okkar og markvarðar hjálpuðu mikið til, Petar tekur einnig nokkra aukabolta, við skulum ekki gleyma því. Þetta skilaði okkur nokkrum þægilegum mörkum upp völlinn og við vorum duglegir að refsa þeim. Við náðum að halda haus.“

Til í að taka þátt í þeim dansi

Leikurinn var gríðarlega hraður og bæði lið keyrðu hraða miðju nánast í hvert einasta skipti, var það eitthvað sem Eyjamenn hefðu kosið fyrir leik?

„Við erum alveg til í að taka þátt í þeim dansi, við teljum okkur líka geta hægt á leiknum þegar við viljum gera það og annað. Þetta er ákveðin skák, þegar menn eru innan plans og liðið nær að spila þannig á fiðluna að við stjórnum því sem er að gerast þá er þetta alltaf auðveldara.“

Eyjamenn léku einnig frábærlega í fyrri hálfleik í síðasta heimaleik gegn Valsmönnum en þar datt allur botninn úr leik Eyjamanna í seinni hálfleik.

„Við vorum allt of passívir í upphafi seinni hálfleiks í þeim leik sem setti okkur í vandræði. Við töluðum líka um það að við þyrftum að laga ákveðna hluti sóknarlega hjá okkur og hefur það gengið ansi vel í síðustu leikjum, hvað það varðar, að undanskildum fyrri hálfleik á móti FH í bikarnum. Við erum á ágætisróli, þurfum að halda einbeitingunni og finna leiðir til þess að bæta okkur frá leik til leiks.“

Bragurinn á liðinu er heilt yfir mjög góður að mati Kristins.

„Mjög góður í dag, það er engin spurning. Það eru algjör forréttindi að spila hér, það er rosalega gaman að geta veitt okkar áhorfendum það sem þeir eiga skilið, maður situr og horfir á stúkuna fyrir leik, hún er troðfull og það er febrúar. Þetta er einstakt og að geta boðið upp á þessa holningu í dag er geðveikt.“

Breiddin hefur aukist

Eyjamenn hafa verið með gott tak á Haukum á heimavelli undanfarin misseri, en liðið hefur unnið sér inn 17 stig af 18 mögulegum í síðustu níu heimaleikjum á móti Haukum.

„Ég gerði mér enga grein fyrir því og það breytir engu þegar við mætum þeim næst. Þá erum við komnir í allt annan leik. Við getum ekki verið værukærir, við eigum leik á sunnudaginn næst á móti liði sem vann okkur í fyrri umferðinni, það er eins gott fyrir okkur að taka það alvarlega að spila á móti Fjölni úti.“

Dregið var í bikarkeppni HSÍ á dögunum og fá Eyjamenn Hauka í undanúrslitum, það verður eflaust skemmtileg viðureign.

„Það er mjög skemmtilegt verkefni, Haukar ÍBV er farið að verða svipað og jafnvel spennuþrungnara en FH Haukar. Það er rosalega oft sem þessi lið hafa barist og hent hvort öðru út úr mikilvægum leikjum. Þetta er keppni sigurvegara að berjast og sjá síðan hvort maður hafi gert nóg eða ekki.“

Theodór Sigurbjörnsson er kominn á parketið og er farinn að skora, það er gott fyrir leikmannahóp ÍBV.

„Það er engin spurning, breiddin hefur aukist hjá okkur. Við lentum í skakkaföllum í síðasta leik og þá voru ungu strákarnir að gera frábæra hluti. Ívar Logi spilaði kannski ekki mikið í dag en hann skilaði frábærum mínútum á móti Aftureldingu um daginn. Það er ótrúlega gaman að fara að lenda í því vandamáli að þurfa að skilja einhvern eftir fyrir utan hóp sem mann langar alls ekkert að skilja eftir fyrir utan hóp. Það hlýtur að vera frábært vandamál.“

Skulum ekki vera að fljúga of hátt

Dagur Arnarsson hefur leikið frábærlega í síðustu tveimur leikjum hjá ÍBV og hefur verið að finna sig betur og betur eftir áramót.

„Það er rosalega gaman að fá að segja að ég hafi sagt þetta, þegar Dagur var að fá hvað mesta gagnrýni þá benti ég á að hann hefði ekki náð undirbúningstímabilinu og því ekkert óeðlilegt að hann væri eftir á. Ég átti ekkert endilega von á því að hann myndi setja 19 mörk í tveimur leikjum en hann hefur verið frábær. Hann er að spila algjörlega á sínum styrkleikum.“

„Akkúrat núna lítur þetta ofboðslega vel út, en við verðum að átta okkur á því að um leið og við slökum aðeins á, þá fáum við þetta beint í andlitið. Þetta er sigur en við skulum ekki fara að fljúga eitthvað allt of hátt.“

Þjálfari og aðstoðarþjálfari ÍBV, Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson.
Þjálfari og aðstoðarþjálfari ÍBV, Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert