Hættir eftir fimm ár í Víkinni

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Gunnar Gunnarsson, þjálfari meistaraflokks karla í handknattleik hjá Víkingi, hefur ákveðið að láta af störfum eftir tímabilið eftir fimm ára veru í Fossvoginum. 

Á árunum fimm hefur Víkingur leikið í tvö ár í efstu deild og þrjú ár í 1. deildinni. Liðið er sem stendur í sjöunda sæti Grill 66-deildarinnar, næstefstu deildar. 

Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu Víkings vegna starfsloka Gunnars

Gunnar hefur þjálfað liðið í fimm ár og hefur á þeim tíma unnið afar fórnfúst og gjöfult starf í þágu Víkings. Hann skilar nú félaginu ungum og mjög efnilegum leikmannahópi sem verður hryggjarstykkið í uppbyggingu karlaliðsins á komandi árum. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð eru leikir í umspili um sæti í efstu deild að ári.

Umbreytinguna má helst sjá á því að í dag eru einungis fjórir leikmenn eftir af því liði sem lék óvænt í Olísdeildinni tímabilið 2017/18.

Vert er að geta þess að þetta er í annað skiptið sem Gunnar hefur þjálfað hjá uppeldisfélagi sínu, en hann þjálfaði Víking einnig tímabilin 1992-1995.

Undir stjórn Gunnars hefur Víkingsliðið og æfingahópurinn yngst verulega ár frá ári sem má best sjá í þeirri staðreynd að í dag eru átta uppaldir Víkingar úr 3. flokki í æfingahóp og þar af þrír sem verið hafa í leikmannahóp í vetur.

Stjórn handknattleiksdeildar Víkings þakkar Gunnari fyrir ómetanlegt framlag til félagsins á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert