Við erum fínir í handbolta

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, var að vonum sáttur eftir …
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, var að vonum sáttur eftir sigur sinna manna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er fyrst og fremst ánægður eftir þennan sigur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 24:23-sigur liðsins gegn ÍR í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurbergi í Breiðholti í nítjándu umferð deildarinnar í kvöld.

„Þetta var fjórði leikurinn okkar á átta dögum og við vorum að spila á erfiðum útivelli gegn sterku liði ÍR. Við gerðum hins vegar vel og náðum í tvö stig þótt við höfum kannski oft spilað betur. Við vitum alveg að við erum fínir í handbolta og við vitum það líka að við getum gert betur. Við erum búnir að vera á fínu skriði að undanförnu og það gerir helvíti mikið fyrir mann að vinna handboltaleiki. Það er ákveðið sjálfstraust og góður gangur í liðinu sem hjálpar að sjálfsögðu til í svona jöfnum leikjum.“

Valsmenn voru með yfirhöndina í leiknum allan tímann en ÍR-ingar komust aldrei yfir, þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til þess.

„Ég var ekki rólegur á hliðarlínunni en eftir að við komumst þremur mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn lokar Sigurður Ingiberg markinu hinum megin. Hann kom þeim inn í leikinn fannst mér en að sama skapi kom Hreiðar Levý líka inn hjá okkur og tók mjög mikilvæga bolta í markinu og hjálpaði okkur að landa sigrinum.“

Valsmenn eru á ótrúlegu flugi en liðið tapaði síðast deildarleik 12. október 2019.

„Það er gríðarlega mikið sjálfstraust í liðinu en við þurfum líka að halda ró okkar og vera jarðbundnir. Við hefðum getað spilað betur en við gerðum í dag en ég vil fyrst og fremst sjá okkur halda áfram að bæta okkur til langs tíma litið,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert