Arftaki Kristjáns hjá Löwen fundinn

Kristján Andrésson var rekinn frá Löwen um helgina.
Kristján Andrésson var rekinn frá Löwen um helgina. AFP

Þýska hand­knatt­leiks­fé­lagið Rhein-Neckar Löwen er búið að ráða nýjan þjálfara en Kristján Andrésson var rekinn úr starfinu á laugardaginn. Íslendingarnir Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason leika báðir með Löwen.

Það er gamla kempan Martin Schwalb sem tekur við liðinu en hann gerði Hamburg óvænt að Evrópumeisturum árið 2013 og þýskum meisturum tveimur árum áður. Hann var látinn fara frá Hamburg árið 2014 og síðan þá starfað sem handbolta sérfræðingur hjá Sky sjónvarpsstöðinni í Þýskalandi.

Kristján tók við Löwen af Ni­kolaj Jac­ob­sen fyr­ir tíma­bilið og samdi til 2022. Liðið féll hins veg­ar snemma úr þýska bik­arn­um og er í sjötta sæti deild­ar­inn­ar með 30 stig eft­ir 23 leiki, tíu stig­um frá toppliði Kiel. Löwen vann aðeins einn sig­ur í síðustu fjór­um deild­ar­leikj­um. Al­ex­and­er Peters­son hef­ur leikið með Löwen síðustu ár og þá samdi Ýmir Örn Gísla­son við fé­lagið á dög­un­um. 

Alexander Petersson er kominn með nýjan þjálfara.
Alexander Petersson er kominn með nýjan þjálfara. Ljósmynd/dkb-handball-bundesliga.de/de/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert