Gerir góðverk í stað þess að spila handbolta

Jesper Konradsson í landsleik með Svíum.
Jesper Konradsson í landsleik með Svíum. AFP

Atvinnumenn í handbolta hafa ekki mikið að gera þessa dagana þegar nánast öll íþróttaiðkun liggur niðri vegna kórónuveirunnar. Svíinn Jesper Konradsson lætur gott af sér leiða á meðan.

Konradsson er lykilmaður í danska liðinu Skjern þar sem hann er liðsfélagi íslensku landsliðsmannanna Björgvins Páls Gústavssonar og Elvars  Jónssonar. Hann er sænskur landsliðsmaður og sérstaklega þekktur fyrir stoðsendingar sínar. Nú gefur hann stoðsendingar á annan hátt.

Konradsson er nefnilega búinn að skrá sig í hóp sjálfboðaliða sem bera út vörur í hús í Skjern, til íbúa í bænum sem eru í sóttkví eða eiga að halda sig heima þar sem þeir eru í áhættuhópi vegna kórónuveirunnar.

„Þegar við getum ekki stundað vinnu okkar sem handboltamenn þá verðum við að reyna að gera gagn á einhvern annan hátt,“ segir Konradsson við staðarblaðið Dagbladet Ringköbing-Skjern.

Hann gæti einmitt þurft að koma með helstu nauðsynjar heim til tveggja liðsfélaga sinna því þeir Bjarte Myrhol og Thomas Mogensen eru báðir í sóttkví heima hjá sér vegna veirunnar.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert