Fann smá hnút í maganum fyrir leik

Leikmenn Fram ræða málin í leikhléi í leiknum í dag.
Leikmenn Fram ræða málin í leikhléi í leiknum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Stella Sigurðardóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í handknattleik, sneri aftur á handboltavöllinn eftir sjö ára hlé þegar lið hennar Fram bar sigurorð af ÍBV, 26:25, í Olís-deildinni í dag.

Stella var að vonum glöð með að snúa aftur á völlinn eftir svo langt hlé. „Líðanin er bara góð, sérstaklega þar sem við unnum, þá er tilfinningin örugglega betri núna en við hefðum ekki gert það. Mér leið bara vel inni á vellinum. Ég fann svona smá hnút í maganum í dag en svo fór það eiginlega um leið og ég var komin inn á völlinn,“ sagði hún í samtali við mbl.is eftir leik.

Stella lék vel í vörn Framara en fór ekkert í sóknina í dag. Aðspurð hvort hana hafi ekkert kitlað í fingurna að fara aðeins í sóknina sagði Stella:

„Nei alls ekki. Ég held að ég fái að æfa aðeins lengur áður en ég treysti mér í sóknina. Mér fannst þetta mjög gott hlutverk sem ég var í í dag og ekki of stórt, þannig að þetta var bara mjög passlegt. Sjáum hvort að þetta verði ekki bara hlutverkið mitt, að vera í vörninni, ég er ansi sátt með það. Ég er ekkert endilega að sækjast eftir því að fara í sóknina.“

Fram var einu marki undir í hálfleik, 13:14, en liðið kom sterkt til leiks í síðari hálfleik. „Mér fannst við eiga mjög mikið inni eftir fyrri hálfleikinn. Við vorum einhvern veginn ekki alveg nógu grimmar fannst mér. Það vantaði svona herslumuninn að taka fráköstin og brjóta skynsamlega. Við vorum of mikið að leyfa þeim að fá færin sín í fyrri hálfleik.

Svo einhvern veginn kom stemningin og grimmdin í seinni hálfleik og svo náum við þriggja og fjögurra marka forystu. En þetta var spennuleikur og skemmtilegur leikur, örugglega mjög skemmtilegur fyrir fólk sem var að horfa á hann. Þetta var bara eins og toppslagir eiga að vera,“ sagði Stella að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert