Ótrúlega sátt við þetta stig

Rut Jónsdóttir reynir skot að marki Vals í leiknum í …
Rut Jónsdóttir reynir skot að marki Vals í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rut Arnfjörð Jónsdóttir lék vel fyrir KA/Þór þegar liðið gerði 23:23 jafntefli við Val í Olísdeild kvenna í handknattleik í kvöld. Hún var markahæst í leiknum með níu mörk og sagðist afar ánægð með úrslitin.

„Ég er bara ótrúlega sátt við þetta stig. Auðvitað var smá basl á sóknarleiknum hjá okkur og oft og tíðum áttum við erfitt með að skora, en það var ekki mikið skorað í þessum leik. Ég er ótrúlega stolt af stelpunum og okkur sem liði.

Mér fannst við sýna ótrúlega flottan karakter og við einhvern veginn höldum áfram allan leikinn þrátt fyrir að hafa verið mikið undir. Þannig að ég er bara ótrúlega ánægð og stolt,“ sagði Rut í samtali við mbl.is að leik loknum.

Hefði Rut viljað stela sigrinum? „Ég er mjög sátt með þetta eina stig en alveg í lokin var ég að horfa á töfluna og hugsaði með mér að við ættum alveg möguleika á að stela sigri hér.

Miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá er kannski sanngjarnt að við fengum bara eitt, en ég sá alveg möguleikann. Það var auðvitað svekkjandi að við misstum þetta niður alveg í lokin en alveg frábært að ná að jafna og svo að standa vörnina í blálokin.“

Rut líst vel á framhaldið og hlakkar mikið til næsta leiks, annars toppslags. „Við eigum leik við Fram á laugardaginn og það verður gaman að mæta þeim aftur. Við mættum þeim alveg í byrjun tímabils og það er auðvitað margt búið að breytast síðan þá.

Karen [Knútsdóttir] er komin inn og Stella [Sigurðardóttir] sem eru náttúrulega þvílíkt flottir leikmenn og rosalega mikilvægar fyrir liðið hjá Fram þannig að það er bara ótrúlega spennandi,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

Leikur KA/Þór og Fram fer fram klukkan 15 næstkomandi laugardag í KA heimilinu á Akureyri. Fyrir leikinn er KA/Þór í 3. sæti Olísdeildarinnar og Fram í 2. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert