Geggjað þegar maður er kominn á þennan aldur

Heimir Óli Heimisson fylgist með Hergeiri Grímssyni reyna skot að …
Heimir Óli Heimisson fylgist með Hergeiri Grímssyni reyna skot að marki Hauka á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var geggjaður sigur gegn góðu Selfossliði,“ sagði Heimir Óli Heimisson, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is eftir 25:20-sigur liðsins gegn Selfossi í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í tíundu umferð deildarinnar í kvöld.

„Þetta var sigur liðsheildarinnar og við spiluðum á öllum mönnum sem mættu tilbúnir til leiks og skiluðu sínu inn á vellinum í kvöld.

Við erum alltaf með ferska menn á vellinum og þannig viljum við spila. Við nýtum þann mannsskap sem við höfum og sama hver er, hann á að koma sterkur inn, og ef það gengur ekki kemur næsti maður inn sem er frábært,“ sagði Heimir.

Atli Már Báruson í baráttunni við Selfyssinga.
Atli Már Báruson í baráttunni við Selfyssinga. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlum sér alla leið

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, er duglegur að hreyfa við liði sínu og gefa leikmönnum spiltíma á vellinum.

„Þótt það sé spilað þétt þá æfum við af fullum krafti og við æfum hart. Það er ekki gefin tomma eftir á æfingum enda vilja allir spila. Samkeppnin um stöður í liðinu er mjög hörð en á sama tíma erum við allir góðir félagar og tilbúnir að hjálpa hver öðrum.

Mér finnst geggjað að það sé verið að skipta reglulega á mönnum enda er maður kominn á þann aldur að það er geggjað að sjá aðra menn koma inn fyrir mann sem blómstra eins og Þráinn Orri og Jakob hafa verið að gera.“

Haukar virka ógnarsterkir og eru til alls líklegir í vetur.

„Þetta er með betri liðum sem ég hef spilað með í Hafnarfirðinum. Það eru kannski eitt eða tvö önnur Haukalið sem koma líka til greina sem þau bestu sem ég hef spilað með en þetta lið er feykisterkt og við ætlum okkur alla leið í vetur,“ bætti Heimir við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert