Ferskari en ég bjóst við

Erlingur Richardsson er þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson er þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var flottur handboltaleikur og aðeins ferskari leikur heldur en ég bjóst við. Það er búið að spila þétt en bæði lið náðu að rótera og láta þetta rúlla þannig að það stendur uppúr. Það er erfitt fyrir öll lið að spila svona þétt en ég get ekki verið ósáttur við þennan leik þó að  auðvitað sé maður fúll yfir úrslitunum,“ sagði Erlingur Richardson, þjálfari ÍBV, eftir 27:25 tap gegn Selfossi á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Við vorum ekki nógu klókir undir lokin með tómt markið fyrir framan okkur en heilt yfir vorum við að spila ágætis handbolta og það er voðalega erfitt að vera gagnrýninn á liðið sitt eftir svona leik. Það hafa nánast allir leikirnir okkar á þessu ári verið svona jafnir, ég ætla að trúa því að þetta fari að detta okkar megin í framhaldinu,“ bætti Erlingur við.

Eyjamenn hafa teflt fram löskuðu liði að undanförnu en ungir peyjar hafa fengið stærra hlutverk og staðið sig vel.

„Það var gott að sjá Sigtrygg [Rúnarsson] inni á gólfinu í kvöld og það eykur breiddina aftur. Ungu leikmennirnir eru búnir að stíga upp og ég er ánægður með þá og líka þá eldri sem hafa þurft að taka að sér önnur hlutverk,“ sagði Erlingur að lokum.

mbl.is