Stórsigrar hjá Fram og Stjörnunni

Andri Már Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Framara.
Andri Már Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Framara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andri Már Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fram þegar liðið tók á móti Þór frá Akureyri í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Safamýrinni í kvöld.

Leiknum lauk með stórsigri Fram, 31:19, en Framarar leiddu með sjö mörkum í hálfleik.

Lárus Helgi Ólafsson átti góðan leik í marki Framara, varði ellefu skot og var með 37% markvörslu, og Ólafur Jóhann Magnússon skoraði sex mörk.

Ihor Kopyshynskhyi var markahæstur Þórsara með sjö mörk og Karolis Stropus skoraði fimm mörk.

Framarar fara með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 18 stig og upp fyrir KA, sem er með 17 stig, en Akureyringar eiga tvo leiki til góða á Framara.

Þórsarar eru í ellefta sæti deildarinnar með 8 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Adam Thorstensen varði fimmtán skot í Garðabænum.
Adam Thorstensen varði fimmtán skot í Garðabænum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þá skoraði Starri Friðriksson sjö mörk fyrir Stjörnuna þegar liðið vann öruggan tíu marka sigur gegn ÍR í TM-höllinni í Garðabæ.

Garðbæingar leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 16:11, og juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik.

Adam Thorstensen átti stórleik í marki Garðbæinga, varði fimmtán skot og var með 47% markvörslu, og Sigurður Dan Óskarsson kom einnig sterkur inn af bekknum, varði sjö skot og var með 54% markvörslu.

Gunnar Valdimar Johnsen var markahæstur ÍR-inga með átta mörk og Hrannar Ingi Jóhannsson og Bjarki Steinn Þórisson skoruðu fimm mörk hvor.

Stjarnan er með 21 stig í þriðja sæti deildarinnar, líkt og ÍBV, en ÍR er sem fyrr á botni deildarinnar án stiga.

mbl.is