Snorri með skilaboð til Valsmanna: Mæta

Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Snorri Steinn Guðjónsson, var sáttur með sigur sinna manna í kvöld en þeir lögðu Eyjamenn á þeirra heimavelli með þriggja marka mun 28:25. Anton Rúnarsson skoraði síðasta markið eftir snögga miðju Valsmanna og það af um 15 metra færi, Anton skoraði úr öllum sínum 10 skotum í leiknum.

„Ég var ekkert með fyrirfram ákveðna hugmynd um það hvernig ég vildi vinna leikinn, ef ég hefði mátt ráða þá hefði ég unnið hann með svona 15-16 mörkum, ég átti heldur ekki von á því,“ sagði Snorri aðspurður hvort hann hafi komið til Eyja til að sækja þriggja marka sigur.

„Við höfum ekki unnið hérna í vetur og bara ekki unnið þá í vetur. Það var mikilvægt fyrir okkur að yfirstíga það, hvort þetta sé 1, 2, 3 í plús eða mínus núna er ekki aðalatriðið. Ef við ætlum okkur áfram þurfum við jafngóða ef ekki betri frammistöðu á föstudaginn. Við þurfum að fara yfir hluti og ná fram góðri frammistöðu.“

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og það var lítið sem skildi á milli liðanna.

Snorri Steinn Guðjónsson í Vestmannaeyjum í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Já, en seinni hálfleikurinn var það líka, þetta er einn kafli þar sem við náum smá forskoti. Þar eru ÍBV klaufar og Martin að verja, við náðum þessu forskoti og héldum því nokkurn veginn út. Við hefðum kannski getað unnið þetta með fjórum eða fimm en ég ætla ekki að kvarta.“

Slæmi kaflinn mætti hjá Eyjamönnum í upphafi seinni hálfleiks en Valsmenn fengu einnig slæman kafla sem þeim tókst þó að vinna sig úr vel.

„Eflaust var þeirra kafli aðeins lengri en okkar, það er viðbúið að þetta sé kaflaskipt og að liðin komi með áhlaup, það er þannig í öllum handboltaleikjum. Þetta snýst um að standa þau af sér og við gerðum það þokkalega, ég var ánægður með frammistöðuna á þessum erfiða útivelli. Við náðum að halda sjó lungað úr leiknum en það er nóg eftir.“

Anton Rúnarsson átti frábæran leik í kvöld en hann skoraði úr öllum sínum 10 skotum en meðal þeirra var markið mikilvæga þegar nokkrar sekúndur voru eftir.

„Hann var geggjaður, hann spilaði lítið á móti KA og þá var Tumi frábær, það er lúxus fyrir mig að geta rúllað þessu svona. Við þurfum að sjá til á föstudaginn, vonandi tekur einhver keflið og siglir þessu heim. Í grunninn vil ég samt fá liðsframmistöðu,“ sagði Snorri sem er væntanlega strax farinn að hlakka til föstudagsins.

Agnar Smári Jónsson fékk rautt spjald undir lok leiksins en hann gæti því verið á leiðinni í leikbann, sem myndi eflaust vera dýrt fyrir Valsara. „Ég vil ekki missa neinn í leikbann en Agnar Smári er lykilmaður hjá okkur og eflaust í leikbanni. Það breytir áherslunum aðeins fyrir okkur, við Óskar förum yfir þetta núna og sjáum hvernig við munum nálgast leikinn á föstudaginn.“

Skilaboð Snorra til Valsmanna fyrir leikinn á föstudaginn voru skýr: „Mæta.“

mbl.is