Svíður því við vorum hrikalega nálægt

Dagur Gautason í leik gegn Selfossi í átta liða úrslitum.
Dagur Gautason í leik gegn Selfossi í átta liða úrslitum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þetta vera hrikalega jafnt,“ sagði Dagur Gautason, hornamaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 32:29-sigur liðsins á Haukum í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. 

Sigurinn dugði Stjörnumönnum ekki því Haukar unnu fimm marka útisigur og fer því áfram með tveggja marka sigri samanlagt. 

„Ég held það hafi ekki margir átt trú á okkar sigri í dag en við höfðum trú á okkur sjálfir og það er það sem skiptir máli fyrir okkur. Þeir fyrri leikinn frekar sannfærandi og kannski voru þeir aðeins slakir í dag. Við mættum í leikinn til að vinna og komast áfram.“

Stjörnumönnum tókst að vinna upp fimm marka muninn frá því í fyrri leiknum en Haukar héldu að lokum út. 

„Haukarnir eru með hrikalega breidd og nánast með tvö mjög sterk byrjunarlið á meðan við erum að keyra mikið á sömu mönnunum. Þeir eru líka með reynsluna með sér í liði. Þetta svíður því við vorum hrikalega nálægt þessu,“ sagði Dagur. 

Stjarnan vann upp tveggja marka forskot í átta liða úrslitunum gegn Selfossi og aftur tókst þeim að vinna upp forskot eftir tap í fyrri leiknum. „Við erum góðir með bakið upp við vegg þegar allt er undir. Við höfðum engu að tapa hvorki í kvöld né á Selfossi. Það er drullugóð liðsheild í þessu liði og við berjumst allir,“ sagði Dagur sem er nokkuð ánægður með tímabilið, þrátt fyrir vonbrigðin í kvöld. 

„Við getum verið með kassann úti þótt við ætluðum okkur að sjálfsögðu lengra. Þegar þú ert kominn svona langt ætlarðu þér alltaf alla leið. Auðvitað er þetta svekkjandi en við byggjum ofan á þetta,“ sagði Dagur Gautason.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert