Ætlaði ekki út í þjálfun

Heimir Ríkarðsson á æfingu á Hlíðarenda.
Heimir Ríkarðsson á æfingu á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Ríkarðsson hefur þjálfað ungmenni í handknattleik hérlendis í fjóra áratugi. Heimir gegnir veigamiklu hlutverki í uppeldi framúrskarandi leikmanna því hann hefur í fjöldamörg ár tekið að sér að stýra 18 ára landsliði karla. Þar hafa ófáir atvinnumennirnir og landsliðsmennirnir farið í gegn á löngum tíma en Íslandi hefur oft tekist að vera á meðal átta bestu þjóða í Evrópu í þeim aldursflokki. Heimir hefur ekki verið fyrirferðamikill í fjölmiðlum í gegnum tíðina en féllst á að veita mbl.is viðtal um þjálfunina þegar eftir því var leitað.

„Ég byrjaði í raun með handboltaskóla fyrir HSÍ en það voru krakkar á aldrinum 14 og 15 ára. Ég skipulagði það en þá komu fleiri þjálfarar en einnig dómarar sem héldu fyrirlestra. En ég hef aðallega verið með 18 ára landsliðið í gegnum tíðina. Eiginlega gegnumsneitt.

Ég byrjaði hjá HSÍ sem aðstoðarþjálfari hjá mönnum eins og Jóhanni Inga Gunnarssyni, Steindóri Gunnarssyni og Þorbergi Aðalsteinssyni. Var með þeim fyrstu árin sem aðstoðarmaður í 18 ára landsliðinu en ég þjálfaði þá stráka á sama aldri hjá Fram. Í kringum 1994 tók ég við sem þjálfari 18 ára landsliðsins.

Í fyrsta landsliðinu sem ég stýrði var til dæmis Guðjón Valur Sigurðsson. Þar voru fleiri sem urðu atvinnumenn eins og Ragnar Óskarsson. Einnig menn sem eru þekktir þjálfarar eins og Halldór Jóhann Sigfússon [á Selfossi] og Einar Jónsson [hjá Fram]. Villi naglbítur [tónlistarmaður] var þarna líka áður en hann fór að troða upp. Fyrsta mótið eftir að ég tók alfarið við var að fara með þennan hóp á Sparkassen Cup í Þýskalandi á milli jóla og nýárs. Síðan þá höfum við nánast farið á það mót árlega. Þetta er mjög eftirminnilegt mót vegna þess að þetta var hálfgerð frumraun og við höfnuðum í þriðja sæti. Strákarnir voru gríðarlega vinsælir og mjög hvattir áfram af þýskum áhorfendum. Þeir heilluðu enda var mikil stemning í liðinu og áttu eiginlega höllina.“

Stóð heldur ekki til að verða lögreglumaður

Heimir hefur aldrei lagt þjálfunina alfarið fyrir sig í þeim skilningi að hún hafi verið hans atvinna. Hann hefur ávallt unnið í lögreglunni en þjálfað handbolta með. Í dag er orðið mun algengara að fólk reyni að lifa af þjálfun íþróttafólks.

„Ég var á vöktum í vinnunni alveg til ársins 2000 en naut mikils velvilja hjá mínum yfirmönnum. Ég fékk jafnvel að skreppa af vöktum til að taka æfingu en ég hef alltaf verið í fullri vinnu utan handboltans. Enda var það miklu algengara þegar ég var að byrja í þessu,“ segir Heimir en hann ákvað að prófa eitt sumar í lögreglunni en er þar enn. Enn meiri tilviljun réði því að hann reyndi fyrir sér sem þjálfari.

Ég ætlaði aldrei í þjálfun en hafði verið fenginn til að taka að mér unglinganefnd hjá Fram. Eftir að hafa ráðið þjálfara var nánast mitt fyrsta verk að segja honum upp vegna þess að hann mætti ekki að fyrstu tvær æfingarnar. Ekki fannst þjálfari og úr varð að ég og vinur minn Lárus Hrafn Lárusson tókum 3. flokk kvenna það árið. Þannig byrjaði ég í þjálfun.“

Heimir fer yfir málin með Frömurum í leik gegn Þór …
Heimir fer yfir málin með Frömurum í leik gegn Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri. Númer 9 er Guðlaugur Arnarsson og til hægri er Sigfús Páll Sigfússon en báðir hafa þeir farið út í þjálfun. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Spurður um hvernig menn endist svo lengi í þjálfuninni segir Heimir að fyrir sig hafi verið nóg að fá hefðbundið sumarfrí.

„Þetta er ástríða og ég væri löngu hættur ef mér þætti þetta ekki skemmtilegt. Mér finnst mjög gaman að þjálfa þennan aldurshóp því áhuginn er svo mikill á þessum aldri. Það er reglulega gaman að vera nálægt leikmönnum sem eru á fullu í íþróttinni. Um leið og keppnistímabilinu lýkur hjá félagsliðinu þá tekur við törn hjá landsliðinu. Þegar tímabilinu lýkur þá er maður oft búinn að fá alveg nóg en það þurfa ekki að líða margar vikur þar til mig fer að klæja í puttana. Þá finnst mér eitthvað vanta og þarf þá að komast aftur á æfingu. Ég þarf ekki meira en sumarfríið til að kúpla mig frá þessu,“ útskýrir Heimir en bendir einnig á að með tímanum viða menn að sér frekari fróðleik um íþróttina og þjálfun. 

„Á sínum tíma þá var ekkert internet og maður þurfti að fara erlendis á námskeið. En það kom einnig fyrir að haldin væru námskeið hér heima.

Ég man til dæmis eftir því þegar Fram stóð fyrir námskeiði með Leif Mikkelsen [fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana]. Nú geta menn leitað að fræðsluefni á netinu en HSÍ er einnig með góð þjálfaranámskeið. HSÍ hélt 2019 fyrsta Mastercoach námskeiðið hér á landi í samvinnu með EHF fyrir stóran hóp íslenskra þjálfara og fór ég á námskeiðið ásamt tveimur samstarfsmönnum mínum í Val, Óskari Bjarna Óskarssyni og Ágústi Þór Jóhannssyni. Fjöldi þjálfara náði sér þá í þessa gráðu. Maður þarf endalaust að bæta við sig.“

Lagt upp úr því að vera í efstu deild á EM

Árangurinn hjá 18 ára landsliði Íslands hefur oftar en ekki verið mjög góður. Fyrir utan það að hafa farið tvívegis í úrslitaleik á EM þá nær Ísland merkilega oft að vera á meðal átta efstu á EM í þessum aldursflokki. Síðasta sumar hafnaði liðið til dæmis í 8. sæti þótt ekki hafi endilega farið mikið fyrir því í umræðunni. Hvernig stendur á þessu?

„HSÍ leggur mikið upp úr því að við séum með öll landsliðin í efstu deild á EM. Það hefur oft tekist hjá karlaliðunum. Ég er sammála þér að árangurinn er ansi jafn hjá 18 ára liðinu á heildina litið. Það eru nokkrir toppar en fá slæm mót. Okkur hefur blessunarlega tekist að vera á meðal átta efstu á EM 18 ára mörg undanfarin ár, en þannig höldum við okkur meðal bestu þjóðanna. Því fylgir alltaf dálítið spenna að ná því vegna þess að þar viljum við vera. Þeir sem eru fæddir 2002 höfnuðu á EM í Slóvakíu í 8. sæti en það tryggir þá þeim sem fæddir eru 2004 keppnisrétt næst í úrslitum á EM og HM. Þetta telur allt.

Stundum þarf aðeins að lesa yfir ungum mönnum. Heimir á …
Stundum þarf aðeins að lesa yfir ungum mönnum. Heimir á EM U18 síðasta sumar. Ljósmynd/EHF

Líklega er helsta skýringin á þessu að þjálfunin er góð í félögunum hér heima. Langflest ef ekki öll félögin eru með góða þjálfara í yngri flokkum og hafa metnað fyrir því. Leikmennirnir eru sjálfir metnaðarfullir og ég gæti trúað því að á þessum aldri séum við duglegri að æfa en aðrar þjóðir. Oft eru fleiri æfingar á viku hér á Íslandi og ég held að það hjálpi okkur að halda þessu við. En við þurfum að bæta styrkinn. Þar erum við aðeins á eftir.“

Ekki gefið að ná alla leið í A-landsliðið

Blaðamaður veltir fyrir sér hvort fylgni sé milli góðs árangurs í yngri landsliðum og góðs árangurs hjá A-landsliði. Þegar A-landsliðið hefur náð afburða árangri höfðu þá landsliðsmennirnir einnig náð góðum árangri með yngri landsliðum?

„Eðlileg þróun væri kannski að einn, tveir eða þrir leikmenn úr hverjum árgangi fari áfram upp í A-landsliðið. Úr kjarna Evrópumeistaraliðsins 2003 fóru Arnór Atlason, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Björgvin Páll Gústavsson og Kári Kristján Kristjánsson áfram upp í A-landsliðið. Ef við horfum á íslenska landsliðið sem fékk verðlaun á ÓL 2008 og EM 2010 þá höfðu flestir í því liði náð fínum árangri í yngri landsliðum.

Heimir Ríkarðsson og Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni hjá Val árið …
Heimir Ríkarðsson og Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni hjá Val árið 2015 . Patrekur var löngu áður í mjög sterku 18 ára landsliði þar sem Heimir var aðstoðarþjálfari. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ef við skoðum þá sem eru fæddir árið 2000 þá eru Viktor Gísli Hallgrímsson og Haukur Þrastarson þegar komnir í A-landsliðið. Ef við skilum tveimur til þremur leikmönnum áfram í A-landsliðið þá er það mjög gott. En það er aldrei neitt gefið að góðir leikmenn í yngri landsliðum komist í A-landslið síðar.“

Evrópumeistarar árið 2003

Geysilega margir snjallir leikmenn hafa farið í gegnum 18 ára liðin á svo löngum tíma. Fyrst þegar Heimir var aðstoðarþjálfari voru Gunnar Andrésson, sem nú er aðstoðarþjálfari Heimis í 18 ára liðinu og fleiri í liðinu.Fljótlega á eftir kom mjög sterkt landslið með Ólaf Stefánsson, Dag Sigurðsson og Patrek Jóhannesson sem lykilmenn. Áður var minnst á Guðjón Val og skömmu síðar sterkt kynslóð manna sem margir voru í landsliðinu sem vann ólympíuverðlaun í Peking 2008: Hreiðar Levý Guðmundsson, Ingimundur Ingimundarson, Róbert Gunnarsson, Snorri Steinn Guðjónsson og fleiri. EM árið 2003 er skiljanlega mót sem stendur upp úr hjá Heimi því þá fór Ísland alla leið og varð Evrópumeistari. Eina skiptið til þessa sem Ísland hefur náð þeim árangri í handboltanum.

„Fyrsta mótið í Þýskalandi var mjög eftirminnilegt og skemmtilegt eins og ég nefndi. Þetta er flott mót og okkur tókst að vinna það árið 2017. En langeftirminnilegasta mótið er EM þegar við urðum Evrópumeistarar. Maður man nánast hverja einustu mínútu frá þessum tveimur vikum í Slóvakíu. Einnig var mjög skemmtilegt að komast í úrslitaleik EM 2018 en þá töpuðum við fyrir Svíum í úrslitaleik,“ segir Heimir en nefnir einnig annað mót sem hann segir hafa verið mikilvægt verkefni en að baki því liggja aðrar forsendur.

„Við vorum með mörg verkefni árið 2017. Í 18 ára landsliðinu þá voru mjög öflugir leikmenn eins og Haukur og Viktor Gísli sem hafa skilað sér upp í A-landsliðið. Liðið fór bæði á Ólympíuleika Evrópuæskunnar og Sparkassen mótið í Þýskalandi. Þegar okkur bauðst að keppa einnig á Opna Evrópumótinu þá þáðum við það en við Magnús Kári Jónsson ákváðum að velja aðra leikmenn því verkefnin voru orðin mörg. Leikmenn í yngri landsliðum safna sjálfir fyrir ferðunum og þessu fylgir mikill kostnaður en sýnir líka metnaðinn hjá þeim. Við fórum með gerbreytt lið á Opna Evrópumótið en náðum þriðja sæti í mótinu eftir sigur á Norðmönnum í leiknum um bronsið. Við vildum auka breiddina og það gekk eftir. Þar tókst að leggja grunn að mjög flottu landsliði drengja sem fæddir eru 2000 og 2001. Á Opna Evrópumótinu spruttu fram menn eins og Einar Örn Sindrason, Blær Hinriksson, Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Stiven Tobar Valencia. Þessir leikmenn höfðu ekki spilað mikið með landsliðinu en svöruðu kallinu heldur betur. Síðar sama ár unnum við mótið í Þýskalandi og liðið fór árið eftir í úrslitaleikinn á EM. Við Magnús Kári vorum mjög ánægðir með þessa ákvörðun,“ segir Heimir.

Sigvaldi hefði getað spilað fyrir Danmörku

Þegar leikmenn eru í kringum 18 ára aldurinn, er auðvelt að sjá hverjir hafa það sem þarf til að verða atvinnumenn og A-landsliðsmenn?

„Auðvitað velur maður leikmenn í landslið sem maður hefur trú á. Leikmenn sem geta náð langt með réttu hugarfari og réttri þjálfun. Stundum sér maður nánast strax að viðkomandi leikmaður muni skila sér í A-landsliðið og fara í atvinnumennsku. Arnór Atla og Ásgeir Örn sem voru í Evrópumeistaraliðinu eru dæmi um þetta. Svipað má segja um Hauk og Viktor Gísla. Allt voru þetta strákar sem voru mjög einbeittir og það sást innan sem utan vallar að þeir ætluðu sér að ná langt. Fóru eftir öllu og hugsuðu vel um sig. Maður sér slíkt mjög glögglega.

Mikill aldursmunur er á Viktori Gísla Hallgrímssyni og Guðjóni Vali …
Mikill aldursmunur er á Viktori Gísla Hallgrímssyni og Guðjóni Vali Sigurðssyni en Heimir stýrði þeim báðum í 18 ára landsliði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég gæti nefnt leikmenn í hverjum einasta árgangi sem eru eftirminnilegir enda hef ég unnið með mörgum af okkar bestu leikmönnum og auðvitað er mjög gaman að hafa fengið að þjálfa svona marga flotta leikmenn. Maður gæti endalaust talið upp. Sigvaldi Björn Guðjónsson er til dæmis í A-landsliðinu í dag en við misstum hann nærri því í danska landsliðið.Hann bjó í Danmörku og hafði verið valinn til æfinga með Dönum. Ég frétti af honum og hafði tal af Sigvalda í þeirri von um að hann myndi spila fyrir Ísland. Eftir gott spjall þá kom hann og æfði með okkur. Sem betur fer.“

Ómar Ingi Magnússon var útnefndur Íþróttamaður ársins á dögunum af Samtökum íþróttafréttamanna. Heimir þekkir einnig til hans.

„Ómar var í yngri landsliðum skipuð leikmönnum fæddum 1996 og 1997. Ég var eiginlega ekkert með þessa árganga. Einar Guðmundsson var með þetta lið en ég leysti hann einu sinni af og fór með liðið á Sparkassen mótið. Þá átti ég að velja leikmenn sem hefðu ekki fengið mikið að spreyta sig og þar spilaði Ýmir Örn Gíslason til að mynda sinn fyrsta landsleik. Ég þjálfaði Ómar hins vegar í Val þegar hann kom þangað frá Selfossi. Maður sá strax að hann var alveg með þetta enda hefur hann gríðarlegan leikskilning.“

Hefur áhyggjur af brottfalli vegna samkomutakmarkana

Sem þjálfari ungmenna á aldri sem oft er lýst sem viðkvæmum þá hefur Heimir áhyggjur af hreyfingaleysinu og mögulega félagslegri einangrun sem fylgt hefur heimsfaraldrinum.

„Ég held að sumir árgangar hafi farið svolítið illa út úr þessu. Ég fann fyrir því þegar ég var að þjálfa hjá Val síðasta vetur. Krakkar sem fædd eru 2005 máttu æfa en þau sem eru fædd 2002 til 2004 máttu það ekki Þar var sem sagt miðað við grunnskólaaldur ásamt því að afreksfólk mátti æfa en þá gleymdist 3. flokkur. Var það eini flokkurinn sem ekki mátti æfa. Þessir árgangar missa svo margt. Missa félagslífið og ýmis samskipti við fólk. Áhugamálin gætu hafa breyst eftir fjarveru frá íþróttunum og ég var hræddur um brottfall. Þar sem ég er sýnist mér brottfallið vera hátt í 10%. Ef maður setur sig í spor þessara ungmenna þá skilur maður þetta. Ef þú ert vanur því sem krakki og unglingur að fara á æfingar oft í viku en svo dettur það allt í einu út. Þá gerirðu eitthvað annað. Maður skilur þetta á vissan hátt þótt manni finnist þetta grátlegt,“ segir Heimir en sjálfur er hann ekki af baki dottinn og er ekki á útleið úr handboltanum enda líklega lítil eftirspurn eftir þeirri ákvörðun.

„Á meðan ég hef gaman að þessu og tel mig geta miðlað einhverju þá held ég áfram,“ segir Heimir Ríkarðsson.

Heimir Ríkarðsson er hugsi yfir því hvaða áhrif samkomutakmarkanir síðustu …
Heimir Ríkarðsson er hugsi yfir því hvaða áhrif samkomutakmarkanir síðustu ára muni hafa á ákveðna árganga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is