Ummælum Björgvins vísað til aganefndar

Björgvin Páll Gústavsson
Björgvin Páll Gústavsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, hefur vísað ummælum Björgvins Páls Gústavssonar, landsliðsmarkvarðar og leikmanns Vals, sem hann lét falla í samtali við mbl.is eftir leik gegn Fram í gærkvöldi til aganefndar sambandsins.

Ummælin sneru að óánægju Björgvins Páls með skot­valið hjá leik­mönn­um Fram í leik gærkvöldsins, þegar Valur vann fyrsta leik liðanna 34:24 í átta liða úrslitum úrslitakeppni karla í gærkvöldi.

„Ég átti von á að þeir myndu berja okk­ur í and­litið og ég átti von á því að þeir fengju rautt spjald. Ég átti von á því að fá bolt­ann yfir haus­inn og í haus­inn. Þetta er það sama og gerðist í síðasta leik og það eru skýr skila­boð. Þeir ætla að fara þannig út.

Annaðhvort gera þeir þetta vilj­andi eða eru svona lé­leg­ir. Ég veit þeir eru góðir handbolta­menn, svo það hlýt­ur að vera það fyrra. Ég er bú­inn að fá fjög­ur skot í haus­inn frá þeim í tveim­ur leikj­um.

Þeir vita að ég fékk skot í haus­inn um dag­inn og það er um að gera að keyra á það þá. Þetta er mjög skyn­sam­legt hjá þeim. Það eru skýr skila­boð að skjóta yfir haus­inn á mér eða í haus­inn á mér. Þeir verða að svara fyr­ir það,“ sagði Björgvin Páll í samtali við mbl.is í gær.

Í úrskurði aganefndar HSÍ sem var birtur í dag segir:

„Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ fyrir hönd stjórnar vegna ummæla leikmanns Vals eftir leik Vals og Fram í úrslitakeppni Olís deildar karla. Með vísan til 20. gr. reglugerðarinnar mun aganefnd leita umsagnar málsaðila áður en úrskurðað verður í málinu. Handknattleiksdeild Vals er því gefinn frestur til kl.11.00, laugardaginn 23. apríl til að skila inn greinargerð vegna málsins.

Næsti leikur Fram og Vals fer fram á sunnudag og ákveði aganefnd að aðhafast eitthvað frekar í málinu gæti Björgvin Páll verið úrskurðaður í bann og þar með misst af honum.

Með sigri í leiknum tryggir Valur sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert