Viktor öflugur í góðum sigri

Viktor Gísli Hallgrímsson á landsliðsæfingu fyrr á árinu.
Viktor Gísli Hallgrímsson á landsliðsæfingu fyrr á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, átti góðan leik í marki í liði GOG þegar liðið bar sigurorð af Ribe-Esbjerg, 33:29, í riðli 1 í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Viktor Gísli varði 11 af þeim 32 skotum sem hann fékk á sig, þar á meðal eitt vítaskot, sem er rétt tæplega 34,5 prósent hlutfallsvarsla.

Með sigrinum endurheimti GOG efsta sæti riðils 1 þar sem liðið er með 10 stig eftir fimm leiki í úrslitakeppninni og komið áfram í undanúrslit.

mbl.is