Slæmur lokakafli reyndist Valsmönnum dýr

Arnór Snær Óskarsson og félagar í Val mæta Aix í …
Arnór Snær Óskarsson og félagar í Val mæta Aix í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslands- og bikarmeistarar Vals máttu þola 29:32-tap gegn franska liðinu Aix í B-riðli Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld. Valsmenn voru yfir stóran hluta leiks, en franska liðið var sterkara á lokakaflanum.

Valsmenn byrjuðu af miklum krafti og komust í 5:2 snemma leiks. Björgvin Páll Gústavsson byrjaði afar vel í markinu og sóknarleikur Vals gekk vel. Franska liðið er hins vegar gríðarlega sterkt og jafnaði í 5:5 og komst svo yfir í fyrsta skipti, í 6:5.

Frakkarnir voru skrefi á undan næstu mínútur og komust mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik, í 11:8. Valsmenn lögðu hins vegar ekki árar í bát og sýndu gríðarlegan styrk með því að jafna í 12:12 og komust yfir, í 13:12. Að lokum var Valur með eins marks forskot í hálfleik 15:14.

Markaskor Valsmanna dreifðist vel, því tíu leikmenn skoruðu mörkin fimmtán. Þorgils Jón Svölu Baldursson og Arnór Snær Óskarsson gerðu þrjú mörk hvor. Björgvin Páll varði níu skot í markinu. Roman Lagarde, franski landsliðsmaðurinn hjá Aix, gerði fjögur mörk og var markahæstur allra í fyrri hálfleik.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti, 24:20, þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Heimamenn neituðu hins vegar að gefast upp, náðu að jafna og komust yfir í fyrsta skipti í seinni hálfleik í stöðunni 28:27 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir.

Aix-menn voru svo töluvert sterkari í blálokin og unnu að lokum þriggja marka sigur. Valsmenn léku vel á stórum köflum í leiknum en til að vinna lið eins og Aix, þarf Valur að spila stórkostlega.

Gabriel Loesch skoraði tíu mörk fyrir Aix og Romain Lagarde gerði sex. Stiven Tobar Valencia og Arnór Snær Óskarsson skoruðu sex hvor fyrir Val og Björgvin Páll Gústavsson varði tólf skot í markinu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aix 32:29 Valur opna loka
60. mín. Aix tekur leikhlé Tæp mínúta eftir og þetta er komið hjá Aix, en þjálfarinn vill ræða við sína menn.
mbl.is