Díana markahæst en úr leik í bikarnum

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Díana Dögg Magnúsdóttir var markahæst í liði Zwickau í 33:27-tapi á heimavelli gegn Rosengarten í 16-liða úrslitum þýska bikarsins í handbolta í dag.

Díana skoraði sjö mörk í leiknum og dró vagninn í sínu liði. Rosengarten náði þó snemma upp nokkurra marka forystu sem liðið lét aldrei af hendi. 

Rosengarten er því komið áfram í 8-liða úrslitin en Zwickau er úr leik. Tímabilið hefur verið erfitt hjá Díönu og liðsfélögum hennar en Zwickau er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar og hefur einungis unnið einn leik í vetur.

mbl.is