Ótrúlegur Óðinn með enn einn stórleikinn

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði hvorki meira né minna en 14 …
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði hvorki meira né minna en 14 mörk í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Óðinn Þór Ríharðsson lék á als oddi er svissneska liðið Kadetten lagði sænska liðið Ystad, 38:32, í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld.

Óðinn gerði sér lítið fyrir og skoraði hvorki meira né minna en 14 mörk fyrir Kadetten í leiknum. Þess má geta að næst markahæsti leikmaður liðsins, sem þjálfað er af Aðalsteini Eyjólfssyni, skoraði þrjú mörk. Ystad var í sama riðli og Valur í riðlakeppninni en Svíarnir enduðu í öðru sæti. 

Seinni leikur Kadetten og Ystad fer fram eftir viku í Svíþjóð.

Teitur og félagar í frábærum málum

Þýska liðið Flensburg er í afar góðum málum en liðið vann stórsigur á portúgalska liðinu Benfica, 39:26, í fyrri leik liðanna í Portúgal. Teitur Örn Einarsson var í leikmannahópi Flensburg í leiknum en komst ekki á blað.

Flensburg var, líkt og Ystad, í sama riðli og Valur og endaði á toppi hans. Liðið fer með 13 marka forskot inn í seinni leikinn sem fram fer í Þýskalandi eftir viku, og er því komið með rúmlega annan fótinn inn í átta liða úrslitin.

mbl.is