Lúxus að ferðast í 14 klukkutíma

Agnar Smári Jónsson með boltann í Evrópuleik.
Agnar Smári Jónsson með boltann í Evrópuleik. mbl.is/Óttar

Agnar Smári Jónsson er mikilvægur hlekkur í Valsliðinu sem er einum leik frá því að verða Evrópubikarmeistari í handbolta. Agnar spilar nær aldrei heilan leik nú til dags en nýtir yfirleitt þær mínútur sem hann fær mjög vel.

„Ég er með mitt hlutverk og í dag er ég ánægður með það. Ég reyni að nýta þau tækifæri sem ég fæ. Ég er alltaf tilbúinn. Við erum með menn í hæsta gæðaflokki í hverri einustu stöðu, tvo til þrjá jafnvel.

Það er ekkert grín að reyna að fá heilan leik og við skiptum þessu vel á milli okkar. Ég er fáránlega ánægður fyrir hönd liðsfélaga þegar gengur vel hjá honum og líka ánægður þegar ég geri mitt,“ sagði Agnar við mbl.is.

Fór viðtalið fram í Grikklandi þar sem Valur leikur við Olympiacos klukkan 17. Valur vann fyrri leikinn, 30:26, á heimavelli og er því í fínni stöðu fyrir leikinn í dag. Agnar kippti sér lítið upp við langan ferðadag á fimmtudag.

„Þetta er sjöunda einvígið okkar. Það er lúxus að enda í Aþenu eftir öll verkefnin í Austur-Evrópu. Maður er orðinn vanur þessum ferðalögum. Það er lúxus að ferðast í 14 klukkutíma í staðinn fyrir meira en 20 klukkutíma.

Það var smá þreyta eftir ferðina í gær en maður er fljótur að ná þessu úr sér. Maður kann að endurheimta og hugsa vel um sig og svo eru aðrir sem hugsa vel um okkur líka,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert