Kynbótasýningar gefa góð fyrirheit fyrir framtíð ræktunar

Þorvaldur Kristjánsson kynbótadómari.
Þorvaldur Kristjánsson kynbótadómari. mbl/Arnþór Birkisson

Undanfarna daga hafa farið fram kynbótasýningar á hryssum á Landsmóti 2018. Kynbótadómarinn Þorvaldur Kristjánsson segir kynbótasýningar á mótinu í ár lofa góðu fyrir framtíð ræktunar. „Við höfum séð fullt af frábærum hryssum, það verður spennandi að fylgjast með framvindu í ræktun á næstu árum. Þetta eru topphryssur sem eru á leið í ræktun og ljóst er að við megum búast við áframhaldandi erfðaframförum á næstu árum. Sá hópur hryssna sem er i ræktun á Íslandi í dag er magnaður en verðlaunahryssur í ræktun eru um 25% af þeim hryssum sem verið er að halda.“

Veðrið náði ekki að hafa teljandi áhrif á dómana en nokkuð hefur rignt og sér í lagi á mánudag. „Þetta er búið að vera nokkuð þungbúið veður en það hefur ekki komið að sök, hrossin björguðu deginum eins og oft áður,“ segir Þorvaldur. Hann er einn reyndasti kynbótadómari landsins og fjallaði doktorsritgerð hans um ganghæfni íslenskra hrossa.

Landsmót í ár einkennist af fjölda verðlaunaafkvæma

Að sögn Þorvaldar er alltaf áhugavert að sjá afkvæmi nýrra afkvæmahesta og þeir hestar sem eru að taka við verðlaunum fyrir afkvæmi á mótinu eru með mörg afkvæma sinna í einstaklingssýningum á mótinu. „Það er alltaf að gaman að sjá framvindu í ræktuninni og nýja afkvæmahesta taka við. Landsmótið í ár einkennist svolítið af fjölda afkvæma hesta sem eru að hljóta verðlaun,“ segir Þorvaldur en 10 kynbótahestar taka við fyrstu verðlaunum í ár fyrir afkvæmi og fjórir fá heiðursverðlaun, sem er meira en oft áður.

„Þetta er í rauninni mjög ánægjuleg staða, þetta eru allt hestar sem eru í mikilli notkun í dag og eru að skila frábærum hrossum. Svo það er gaman að fá að sjá sýnishorn af afkvæmum þessara hesta.“ Hann segir sýningar á afkvæmahestum jafnframt gefa ræktendum tækifæri á að stilla betur sína ræktun, fá betri tilfinningu fyrir erfðum stóðhestana og hvernig gerð hryssna þeir passa best. „Listar yfir afkvæmi sem koma til með að fylgja feðrum sínum á landsmóti liggja fyrir og ljóst er að hóparnir verða allir glæsilegir og tilhlökkunarefni er að berja þá augum. Það stefnir í mikla veislu á Landsmóti í Víðidal,“ segir Þorvaldur og rýkur af stað í dómarastörfin.

Frá kynbótasýningu 6 vetra hryssna í gær.
Frá kynbótasýningu 6 vetra hryssna í gær. Ljósmynd/Nína Guðrún Geirsdóttir
mbl.is