Rússar eru í vanda í vörn og á miðju

Rússneska liðið sem mætti Tyrkjum í síðasta leik fyrir HM …
Rússneska liðið sem mætti Tyrkjum í síðasta leik fyrir HM en sá leikur endaði 1:1. AFP

Stanislav Tsjertsjesov tók við landsliði Rússa af Leonid Slutskij, strax eftir að EM 2016 lauk. Liðið endaði í neðsta sæti B-riðils með 1 stig en Rússar voru með Slóvakíu, Englandi og Wales í riðli á mótinu.

Tsjertsjeshov gaf það út fljótlega eftir að hann tók við liðinu að hann ætlaði sér að byggja liðið upp frá grunni. Hann byrjaði á því að breyta í þriggja manna varnarlínu og fór strax í það að finna réttu blönduna af sterkum miðvörðum. Hann vildi færa liðið nær nútímanum.

„Við þekkjum allir sögu landsliðsins, við höfum aldrei afrekað neitt með fjögurra manna varnarlínu,“ sagði þjálfarinn þegar hann útskýrði ákvörðun sína. „Nánast helmingur allra liða í rússnesku úrvalsdeildinni spilar með þriggja manna varnarlínu. Við þurfum að vera sveigjanlegir.“

Það var strax ljóst að Ikor Akinfeev yrði aðalmarkmaður liðsins en varnarlínan var í lausu lofti. Berezutsky-tvíburarnir og Sergey Ignashevitsj lögðu landsliðsskóna á hilluna árið 2016 og Tsjertsjesov fór því að prófa sig áfram með unga og óreyndari varnarmenn eins og Ilja Kutepov og Georgij Dzhikija frá Spartak Moscow og Viktor Vasin frá CSKA. Tsjertsjesov endaði á að nota þrettán miðverði á tæplega tveimur árum. Þetta þýðir að það verður afar erfitt að spá fyrir um varnarlínu rússneska liðsins, meira að segja þjálfari liðsins gæti átt í vandræðum með að svara því, sér í lagi þar sem að þeir Vasin og Dzhikija eru báðir meiddir. Flestir hefðu reiknað með því að þeir myndu byrja gegn Sádi-Arabíu ef þeir hefðu ekki slitið krossbönd fyrr á árinu. Ignashevitsj snéri aftur í rússneska hópinn 14. maí síðastliðinn eftir að Ruslan Kambolov þurfti að draga sig úr honum vegna meiðsla en það verður að teljast afar ólíklegt að hann muni spila í júní.

Rússar hafa verið afar óheppnir með meiðsli. Framherjinn Alexander Kokorin, einn af lykilmönnum liðsins, mun missa af HM en hann þurfti að gangast undir aðgerð vegna krossbandsslita fyrr í vetur. Hann var frábær fyrri hluta tímabilsins og skoraði 19 mörk í öllum keppnum fyrir Zenit frá Pétursborg og þarf Tsjertsjesov því að treysta á mörk frá öðrum leikmönnum. Anton Zabolotnij, varaskeifa Kokorin hjá Zenit, var afar slakur með liðinu í vor og Artjom Azjuba, leikmaður Zenit og lánsmaður hjá Arsenal Tula er ekki í náðinni hjá Tsjertsjesov. Það þykir því líklegast að Fjodor Smolov, sóknarmaður Krasnodar, verði framherji númer eitt.

Þá verður erfitt að spá fyrir um miðjumenn Rússana en þeir munu nota tvo vængbakverði í sumar og þær stöður eru ennþá á lausu.

Stærsta vandamál Rússa á miðsvæðinu er að þá vantar varnarsinnaðan miðjumann. Fyrirfram ætti valið að vera auðvelt, Igor Denisov, miðjumaður Lokomotiv Moskva hefur verið frábær á þessari leiktíð en því miður eru hlutirnir aðeins flóknari. Árið 2015 unnu Tsjertsjesov og Denisov saman hjá Dynamo Moskva og það kom upp ósætti á milli þeirra. Þeir hafa því ekki talast við í þrjú ár. Denisov er langbesti varnarsinnaði miðjumaður Rússa í dag en Tsjertsjesov hefur aldrei valið hann í hópinn. Hann hafði lítinn áhuga á því að ræða fjarveru miðjumannsins við blaðamenn sem spurðu hann í byrjun árs af hverju Denisov væri ekki í hópnum. „Það er ég sem er þjálfari liðsins og það er ég sem tek ákvarðanir hér,“ sagði þjálfarinn pirraður.

Tsjertsjesov hefur notað Denis Glushakov, miðjumann Spartak Moskva sem afturliggjandi miðjumann. Glushakov hefur hins vegar ekki átt gott tímabil og hann er ekki vanur að spila þessa stöðu með sínu félagsliði. Rússar eiga hins vegar nóg af sóknarþenkjandi miðjumönnum. Tsjertsjesov hefur sett traust sitt á Alexander Golovin, Roman Zobnin, Daler Kuzjaev og Alan Dzagoev og þykir líklegt að þeir muni berjast um stöðurnar á miðjunni. Alexei Mirantsjuk ætti svo að byrja fremstur á miðjunni fyrir aftan Smolov. Þar sem Kokorin er meiddur munu Rússar stilla upp einum framherja og einum framliggjandi miðjumanni.

Líklegt byrjunarlið: Akinfeev – Granat, Kutepov, Kudrjashov – Samedov, Golovin, Kuzjaev, Zobnin, Zhirkov – Alexei Mirantsjuk, Smolov.

Þetta er ein af 32 greinum úr HM-blaði Morgunblaðsins sem eru skrifaðar af jafnmörgum íþróttafréttamönnum þeirra þjóða sem eiga lið á HM. Rússar mæta Sádi-Aröbum í upphafsleik keppninnar kl. 15 í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert