Heppnismark Costa og Spánverjar unnu

Framherjinn Diego Costa tryggði Spánverjum sigur gegn Írönum þegar þjóðirnar áttust við í síðari leik B-riðilsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Kazan í Rússlandi í kvöld.

Costa skoraði eina mark leiksins á 54. mínútu leiksins. Costa hafði heppnina með sér en eftir atgang í vítateig Írana skaut varnarmaður Íran boltanum í hnéð á Costa og af honum fór boltinn í netið.

Spánverjar sóttu nær linnulaust að marki Írana nær allan tímann og sigurinn var fyllilega sanngjarn en Íranar áttu af og til hættulegar sóknir í leiknum.

Costa hefur þar með skorað þrjú mörk á HM en hann skoraði tvö af mörkum Spánverja í 3:3 jafntefli gegn Portúgölum í frábærum leik þar sem Cristiano Ronaldo skoraði öll mörk Portúgala.

Spánn og Portúgal eru bæði með 4 stig í riðlinum, Íran 3 en Marokkó situr á botninum án stiga. Í lokaumferðinni mætast annars vegar Spánn og Marokkó og hins vegar Portúgal og Íran.

Diego Costa fagnar marki sínu í kvöld.
Diego Costa fagnar marki sínu í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert