Með allt í okkar höndum

Gernot Rohr þjálfari Nígeríu og John Obi Mikel fyrirliði á …
Gernot Rohr þjálfari Nígeríu og John Obi Mikel fyrirliði á fréttamannafundi liðsins í dag. AFP

John Obi Mikel fyrirliði nígeríska landsliðsins í knattspyrnu segir að lið sitt hafi enn allt í sínum höndum varðandi möguleikana á að komast áfram úr D-riðli heimsmeistaramótsins í Rússlandi.

Nígería og Ísland mætast í annarri umferð riðlakeppninnar í Volgograd á föstudaginn en Ísland er með eitt stig og Nígería ekkert.

„Við erum mjög bjartsýnir og fullir sjálfstrausts því við erum enn með allt í okkar höndum. Það er bara spurning um hversu mikið við viljum þetta. Úrslitin gegn Króötum voru okkur vonbrigði en við getum bætt fyrir það," sagði Mikel á fréttamannafundi í Essentuki í dag en þar hefur nígeríska liðið  bækistöðvar sínar.

Mikel hefur vanalega leikið sem varnartengiliður og gerði það um árabil með Chelsea, en hann hefur verið fremstur á miðjunni hjá nígeríska liðinu að undanförnu.

„Það er frábært að spila þar. Ég hef verið í þessari stöðu í hálft annað ár og enginn kvartað yfir því. Mér líður vel í báðum stöðum og mitt aðalmarkmið er að gera allt sem ég get til að mitt lið sigri," sagði Mikel.

Nígeríska liðið er væntanlegt til Volgograd á morgun, sólarhring síðar en íslenska liðið sem kom til borgarinnar síðdegis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert