„Ætla ekki í feluleik“

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson á fréttamannafundinum á Volgograd …
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson á fréttamannafundinum á Volgograd Arena. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög ólíklegt að Jói spili. Hann er reyndar betri en hann hefur verið og batnar á hverjum degi. Hann er í góðum höndum,“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem nú stendur yfir á Volgograd Arena.

„En ég ætla ekki í feluleik með það að það er mjög ólíklegt að hann spili. Það hafa margir fengið tækifæri og staðið sig vel," segir Heimir aðspurður um stöðuna á Jóhanni Berg, og bætir við að Ísland hafi ekki ástæðu til að vera hrætt við að gera breytingar.

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir var spurður um hitann mikla hérna í Volgograd en 33 stiga hiti er þessa stundina og verður það þegar leikurinn við Nígeríumenn hefst á morgun

„Við spiluðum í nokkuð miklum hita á móti Argentínu, erfiðan leik. Ég veit að það á að vera nokkrum gráðum heitara hér, og líklega hentar það Nígeríubúum betur en Íslendingum að spila í svona hita. Við tökum það til umhugsunar þegar við setjum upp okkar leikplan, eins og ég hugsa reyndar að allir geri,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert