Góðar líkur á að Jóhann og Ragnar spili

Ragnar Sigurðsson þurfti að fara af velli á 65. mínútu …
Ragnar Sigurðsson þurfti að fara af velli á 65. mínútu vegna meiðsla. AFP

Góðar líkur eru á að Ragnar Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verði báðir klárir í slaginn með íslenska landsliðinu þegar það mætir Króötum í lokaleik sínum í riðlakeppninni á HM í knattspyrnu í Rostov á þriðjudaginn.

Jóhann Berg meiddist á kálfa í leiknum gegn Argentínumönnum og gat ekki verið með í leiknum gegn Nígeríu í gær. Hann er hins vegar allur að braggast og var með á æfingu landsliðins í úrhellisrigningu í Kabardinka í morgun.

„Það var alltaf stefnan að reyna að ná Jóa heilum fyrir þennan Króatíuleik og vonandi nær hann því. Hann fer batnandi með hverjum degi. Eins og staðan er núna er alveg raunhæft að hann spili. Hvort hann verði 100 prósent veit ég ekki, við verðum að bíða og sjá," sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari við mbl.is.

Ragnar fékk skurð á höfuðið í leiknum gegn Nígeríu snemma í síðari hálfleik og fór svo að velli stundarfjórðungi síðar eða á 64. mínútu. Ragnar var saumaður nokkrum sporum í hnakkann eftir leikinn en hann vaknað sprækur í morgun og skokkaði á æfingunni ásamt þeim leikmönnum sem léku allan tímann í gær.

„Raggi svaf vel í nótt og vaknaði hress. Ég held að hann sé í lagi. Þetta var fyrst og fremst sár á höfði, einhverjar sjóntruflanir í gærkvöld en virðist vera allt í góðu lagi. Hann er ekki með ógleði eða neitt sem styður heilahristing. Það er skylda að taka heilahristingspróf á vellinum og við fylgdumst vel með honum," sagði Heimir við mbl.is.

Byrjunarliðsmennirnir frá gærkvöldinu fengu að ráða því hvort og hvernig þeir æfðu í dag. Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson völdu að sleppa æfingunni en hinir eru allir úti á vellinum í hellirigningunni í Kabardinka þessa stundina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert