Ellefu frá City í 8-liða úrslitunum

Manchester City-leikmennirnir Raheem Sterling og John Stones fagna marki Englendinga ...
Manchester City-leikmennirnir Raheem Sterling og John Stones fagna marki Englendinga á HM. AFP

Englandsmeistarar Manchester City eiga ellefu leikmenn í átta liða úrslitunum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hefjast í dag. Það er sögulegt því aldrei áður hefur sama lið átt jafnmarga leikmenn í fjórðungsúrslitum á HM.

Þegar Brasilía og Belgía mætast í átta liða úrslitunum í Kazan í kvöld verða sex leikmenn City í leikmannahópunum. Tveir frá Belgíu, Vincent Kompany og Kevin De Bruyne, og fjórir frá Brasilíu, Gabriel Jesus, Fernandinho, Danilo og Ederson.

„Ég kann vel við liðsfélaga mína sem manneskjur en þegar leikurinn hefst verður enginn kærleikur,“ segir Vicent Kompany, fyrirliði belgíska landsliðsins og Manchester City.

Hinir fimm leikmennirnir sem spila með Manchester City og eru í átta liða úrslitunum eru John Stones, Kyle Walker, Fabian Delph og Raheem Sterling, sem allir spila með Englendingum, og Benjamin Mendy, leikmaður franska landsliðsins.

mbl.is