Svíar brottfluttir af liðshótelinu

Sænski hópurinn við æfingar.
Sænski hópurinn við æfingar. AFP

Sænski landsliðshópurinn í knattspyrnu þurfti að yfirgefa hótelið sem hann dvelur á í Samara í Rússlandi í nótt eftir að brunaboðinn fór í gang.

Allt hótelið var rýmt, sem og nærliggjandi byggingar en samkvæmt yfirmönnum hótelsins mun einhver hafa reykt í herbergi sínu og þar af leiðandi sett kerfið af stað.

Sænsku leikmennirnir gátu snúið aftur til herbergja sinna stuttu seinna og haldið áfram undirbúningi sínum fyrir leikinn gegn Englandi í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins sem fer fram síðar í dag.

mbl.is