Tvö mörk í uppbótartíma eftir að markvörðurinn sá rautt

Leikmenn Íran fagna vel og innilega.
Leikmenn Íran fagna vel og innilega. AFP/Fadel Senna

Íran hafði betur gegn Wales, 2:0, í B-riðli á HM karla í fótbolta í Katar í dag. Bæði mörkin komu í uppbótartíma, eftir að Wayne Hennessey í marki Wales fékk beint rautt spjald á 86. mínútu. 

Staðan er 0:2. Roobeh Cheshmi skoraði fyrra markið á áttundu mínútu uppbótartímans og Ramin Rezaeian það seinna á elleftu mínútu uppbótartímans. Íran er með þrjú stig í öðru sæti, en Wales í fjórða og neðsta sæti með eitt. 

Leikið er á Ahmed bin Ali-vellinum í Al Rayyan, en hann rúmar 45.000 manns. Bandaríkin og England mætast í sama riðli klukkan 19. England er með þrjú stig eftir einn leik og Bandaríkin eitt. 

Wayne Hennessey fær að líta rauða spjaldið.
Wayne Hennessey fær að líta rauða spjaldið. AFP/Fadel Senna

Neco Williams átti fyrstu tilraun leiksins á 3. mínútu en hann skaut nokkuð yfir með tilraun utan teigs. Wales var áfram líklegra liðið til að skora og Keiffer Moore fékk gott færi á 12. mínútu en skaut nokkuð beint á Sayed Hosseini í marki Íran. 

Ali Gholizadeh kom boltanum í mark Wales á 16. mínútu en markið taldi ekki, þar sem hann var í rangstöðu. Íranska liðið var hins vegar sterkara eftir markið og Ahmad Nourollahi átti m.a. hættulegt skot sem Joe Rodon gerði vel í að kasta sér fyrir. Skyndisóknir Írana voru hættulegar. 

Færin létu hins vegar á sér standa seinni hluta fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi því markalaus. 

Sardar Azmoun sleppur í gegn en skýtur í stöngina.
Sardar Azmoun sleppur í gegn en skýtur í stöngina. AFP/Adrian Dennis

Íran var hins vegar hársbreidd frá því að skora fyrsta markið á 52. mínútu og fékk til þess þrjú færi. Sardar Azmoun byrjaði á því að sleppa í gegn en hann skaut í nærstöngina. Nokkrum sekúndum síðar átti Ali Gholizadeh glæsilegt skot í stöngina fjær og Azmoun tók frákastið en Wayne Hennessey í marki Wales varði glæsilega frá honum. Einhvern veginn tókst Íran hins vegar ekki að skora. 

Gareth Bale, skærasta stjarna Wales, með boltann í dag.
Gareth Bale, skærasta stjarna Wales, með boltann í dag. AFP/Fadel Senna

Íran hélt áfram að skapa sér færi og Saeid Ezatolahi átti stórhættulegt skot á 72. mínútu en Hennessey varði aftur mjög vel. Á 84. mínútu var komið að Sayed Hosseini í marki Íran að verja. Hann gerði þá glæsilega í að slá boltann yfir markið eftir neglu frá Ben Davies. 

Aðeins mínútu síðar keyrði Hennessey í marki Wales Mehdi Taremi niður langt fyrir utan vítateig og fékk verðskuldað rautt spjald að launum fyrir, eftir skoðun í VAR. Nokkrum augnablikum síðar átti Mehdi Torabi skot rétt framhjá eftir harða sókn Írana. 

Milad Mohammadi og Connor Roberts eigast við í dag.
Milad Mohammadi og Connor Roberts eigast við í dag. AFP/Nicolas Tucat

Sókn íranska liðsins bar loksins árangur á áttundu mínútu uppbótartímans er varamaðurinn Roozbeh Cheshmi skoraði glæsilegt mark. Hann kláraði á með hnitmiðuðu skoti í bláhornið af rúmlega 20 metra færi. Við markið og rauða spjaldið opnaðist vörn Wales meira og Ramin Rezaeian skoraði annað mark á elleftu mínútu uppbótartímans er hann slapp einn í gegn, skoraði af öryggi og þar við sat. 

Wales og Íran leiða saman hesta sína í dag.
Wales og Íran leiða saman hesta sína í dag. AFP/Antonin Thuillier

Lið Wales:
Mark: Wayne Hennessey (rautt spjald 86.)
Vörn: Chris Mepham, Joe Rodon, Ben Davies
Miðja: Conor Roberts (Brennan Johnson 57.), Aaron Ramsey (Danny Ward 87), Ethan Ampadu (Joe Allen 77.), Harry Wilson (Daniel James 57.), Neco Williams
Sókn: Keiffer Moore, Gareth Bale

Lið Írans:
Mark: Sayed Hosseini
Vörn: Ramin Rezaeian, Morteza Pouraliganji, Majid Hosseini, Milad Mohammadi
Miðja: Ali Gholizadeh (Alireza Jahanbakhsh 77.), Ahmad Nourollahi (Roozbeh Cheshmi 78.), Saeid Ezatolahi (Ali Karimi 83.), Ehsan Safi (Mehdi Torabi 77.)
Sókn: Sardar Azmoun (Karim Ansarifard 68.), Mehdi Taremi

Liðsmenn Wales skoða aðstæður fyrir leik.
Liðsmenn Wales skoða aðstæður fyrir leik. AFP/Nicolas Tucat
mbl.is