Líflína fyrir Þjóðverja er Kostaríka lagði Japan

Keysher Fuller fagnar marki sínu í dag.
Keysher Fuller fagnar marki sínu í dag. AFP/Raul Arbeoleda

Kostaríka vann heldur betur óvæntan 1:0 sigur á Japan í 2. umferð E-riðilsins á heimsmeistaramóti karla í fótbolta á Al-Rayyan-vellinum í Katar í dag.

Keysher Fuller skoraði sigurmarkið á 81. mínútu leiksins með flottu skoti frá vítateig upp í vinstra hornið. 

Þetta eru frábær úrslit fyrir Þjóðverja sem létta aldeilis á þeim fyrir stórleikinn gegn Spáni sem hefst klukkan 19 í kvöld.

Spánn, Japan og Kostaríka eru nú öll með 3 stig en Þýskaland ekkert. Spánn og Þýskaland mætast í kvöld. Þjóðverjar gætu nú komist áfram, þó þeir ynnu ekki leikinn í kvöld, með því að vinna Kostaríka í lokaumferðinni. 

Á 14. mínútu kom Ritsu Doan sér í góða sendingastöðu og gaf boltann þvert fyrir en þar var enginn til að pota honum inn.

Eftir það atvik skapaðist varla færi í heldur daufum fyrri hálfleik. Liðin skiptu á milli sér boltanum en náðu lítið að brjóta hvort annað niður og hálfleikstölur því 0:0. 

Japanir gerðu tvær breytingar í hálfleik er Hiroki Ito og Takuma Asano komu inn fyrir Ayase Ueda og Yuto Nagatomo. Það var fljótt að skila fyrsta almennilega færi leiksins er Asano lagði boltann á Hidemasa Morita sem átti hörkuskot rétt utan teigs sem Keylor Navas varði. 

Japanir fengu síðan tvær hættulegar aukaspyrnur en fóru illa að ráði sínu. Úr þeirri fyrri skaut Yuki Soma lengst yfir og Daichi Kamada skaut svo í vegginn úr þeirri síðari. 

Gegn gangi leiksins kom Keysher Fuller Kostaríka yfir á 81. mínútu leiksins með fyrsta skoti landsliðsins á markið á mótinu. Hann fékk þá boltann frá Yeltsin Tejada og lagði hann glæsilega í fjær. Heldur betur óvænt. 

Á 88. mínútu skapaði svo varamaðurinn Karou Mitoma dauðafæri fyrir Kamada sem fór illa að ráði sínu og lét Keylor Navas verja frá sér. Mitoma hélt svo áfram að skapa færi en ekkert varð úr því og Kostaríkumenn vinna Japan 1:0. 

Lið Japan: (4-5-1)
Mark: 
Shuichi Gonda
Vörn: Miki Yamane (Karou Mitoma 62.), Ko Itakura, Maya Yoshida, Yuto Nagatomo (Hiroki Ito 46.)
Miðja: Ritsu Doan (Junya Ito 67.), Wataru Endo, Daichi Kamada, Hidemasa Morita, Yuki Soma (Takumi Minamino 82.)
Sókn: Ayase Ueda (Takuma Asano 46.)

Lið Kostaríka: (4-4-2)
Mark: 
Keylor Navas
Vörn: Kendall Waston, Oscar Duarte, Francisco Calvo, Bryan Oviedo
Miðja: Keysher Fuller, Celso Borges, Yeltsin Tejeda, Gerson Torres (Brandon Aguilera 65.)
Sókn: Joel Campbell, Anthony Contreras (Jewison Bennette 65.)

Keysher Fuller, liðsmaður Kostaríka og Japaninn Yuki Soma berjast um …
Keysher Fuller, liðsmaður Kostaríka og Japaninn Yuki Soma berjast um boltann. AFP/Raul Arboleda
Japanskaliðið fyrir leik.
Japanskaliðið fyrir leik. AFP/Philip Fong
Keylor Navas stendur vaktina í marki Kostaríka að vanda.
Keylor Navas stendur vaktina í marki Kostaríka að vanda. AFP/Raul Arboleda
mbl.is