Messi tók fram úr Maradona

Diego Maradona og Lionel Messi.
Diego Maradona og Lionel Messi. AFP

Lionel Messi sló í gær leikjamet argentínska karlalandsliðsins í knattspyrnu á heimsmeistaramóti þegar hann lék í 2:0-sigri Argentínu á Póllandi á HM í Katar í gærkvöldi.

Messi, sem er 35 ára gamall, lék sinn 22. leik fyrir Argentinu á HM og hefur enginn leikmaður þjóðarinnar spilað jafn marga leiki á heimsmeistaramóti.

Hann tekur nú þátt á sínu fimmta heimsmeistaramóti þar sem hann lék á HM 2006, 2010, 2014, 2018 og í ár.

Þar með sló Messi met goðsagnarinnar Diego Maradona, sem lék 21 leik á fjórum mótum frá 1982 til 1994, og leiddi Argentínu meðal annars til sigurs árið 1986.

Maradona lést fyrir rétt rúmum tveimur árum og sagði Messi að hann hefði eflaust samglaðst sér.

„Það er frábært að slá svona met. Ég tel að Diego hefði verið mjög ánægður fyrir mína hönd. Hann sýndi mér alltaf mikla ástúð,“ sagði Messi í viðtali við belgíska miðilinn Sporza eftir leik.

mbl.is