Stórstjarna sem enginn vill

Portúgalska liðið lék mun betur eftir að Ronaldo fór af …
Portúgalska liðið lék mun betur eftir að Ronaldo fór af velli. AFP/Fabrice Coffrini

„Cristiano Ronaldo er orðinn að stórstjörnu sem enginn vill,“ byrjar Phil McNulty, blaðamaður BBC, grein sína um portúgalska leikmanninn. Ronaldo byrjaði á varamannabekknum í 6:1-sigri Portúgals á Sviss í 16-liða úrslitum HM í fótbolta í Katar í gærkvöldi.

Portúgal átti sinn langbesta leik í keppninni til þessa, í fjarveru Ronaldos, nokkrum dögum eftir að samningi hans við Manchester United var rift.

McNulty hrósar Fernando Santos, landsliðsþjálfara Portúgals, fyrir að þora að setja sína stærstu stjörnu á bekkinn og sú ákvörðun hafi borgað sig. Santos hefur einnig gagnrýnt hugarfar Ronaldos, sem brást illa við að vera tekinn af velli gegn Suður-Kóreu í riðlakeppninni. 

Er þetta í fyrsta skipti sem Ronaldo er ekki í byrjunarliði Portúgala, þegar hann er heill heilsu, frá árinu 2008. Var um mjög stóra ákvörðun hjá Santos að ræða, því honum hefði verið kennt um ef illa hefði farið. Þess í stað leit portúgalska liðið mun betur út og verður að teljast líklegt að Ronaldo byrji á bekknum gegn Marokkó í átta liða úrslitum.

Greinina hjá McNulty má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is