Ótrúleg dramatík hjá Þjóðverjum og Frökkum

Frakkinn Luka Karabatic og Þjóðverjinn Fabian Boehm í baráttu í …
Frakkinn Luka Karabatic og Þjóðverjinn Fabian Boehm í baráttu í leiknum í kvöld. AFP

Það var boðið upp á frábæra skemmtun þegar Þjóðverjar og Frakkar mættust í A-riðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Berlín í kvöld. Eftir sannkallaða æsispennu þar sem Frakkar jöfnuðu á lokasekúndunni var niðurstaðan jafntefli 25:25.

Leikurinn var í járnum svo til allan tímann og bæði lið sýndu sínar bestu hliðar. Þjóðverjar voru þó fetinu framar í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti á meðan Frakkar voru aðeins einu sinni með forystu í fyrri hálfleiknum. Að honum loknum var staðan 12:10 fyrir Þjóðverja.

Frakkar voru hins vegar fljótir að jafna metin eftir hlé og lengi vel skiptust liðin á að hafa forystuna. Þegar um tíu mínútur voru eftir komust Þjóðverjar í 22:20 og var það þá aðeins í annað sinn eftir hlé sem munaði meira en einu marki á liðunum. Þjóðverjar náðu að byggja á þessu og settu pressu á Frakka fyrir lokakaflann, sem var æsispennandi.

Þegar tæp hálf mínúta var eftir var staðan 25:24 fyrir Þjóðverja og Frakkar í sókn. Frakkar fengu aukakast þegar þrjár sekúndur voru eftir og þar var það Timothey N‘Guessan sem lyfti sér upp og skoraði. Lokatölur 25:25 í mögnuðum leik.

Kentin Mahe var markahæstur hjá Frökkum með níu mörk en hjá Þjóðverjum voru Martin Strobel, Fabian Wiede og Uwe Gensheimer allir með fjögur mörk.

Frakkar eru á toppi A-riðils með sjö stig, einu stigi á undan Þjóðverjum sem gerðu jafntefli við Rússa í gær. Þessi úrslit þýða hins vegar að bæði lið eru komin áfram í milliriðla. Rússland og Brasilía bítast um að fylgja þeim áfram.

mbl.is