Gaman að standa í íslenska liðinu

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla.
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla. AFP

„Þetta var hörkuleikur hjá okkur. Ég er sáttur við mína menn, ekki bara í þessum leik heldur í undanförnum viðureignum,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir viðureignina við íslenska landsliðið á heimsmeistaramótinu í handknattleik í dag.

Japanska landsliðið veitti íslenska landsliðinu harða keppni í dag og var viðureignin lengi vel í járnum. Ísland vann að lokum, 25:21.

„Við sýndum jafnvægi í leik okkar, sveiflurnar hafa minnkað auk þess sem álagið hefur dreifst mjög vel á milli manna. Varnarleikurinn er að þéttast og markvarslan aðeins að batna. Það er margt jákvætt að gerast hjá okkur,“ sagði Dagur og bætti við að varnarleikur japanska landsliðsins hafi batnað eftir erfiðar upphafsmínútur.  „Við hlupum betur til baka og síðan fóru skot að klikka hjá Íslendingum. Þá kom beygur í þá sem gaf okkur hörkuleik. Það var gaman að standa aðeins í íslenska liðinu,“ sagði Dagur enn fremur.

Dagur á leik við Barein á morgun. Bæði lið Barein og Japans eru án sigurs í mótinu fram til þessa. Þá mætir Dagur aftur íslenskum landsliðsþjálfara, Aroni Kristjánssyni, fyrrverandi samherja sínum úr íslenska landsliðinu.

„Nú langar mig að vinna. Það er næsta skref hjá okkur. Bareinar eru erfiðir fyrir okkur. Þeir hafa fínan markvörð og mjög góðan miðjumann sem getur stýrt leiknum. Bareinliðið hefur reynst okkur erfitt og vann okkur með tíu marka mun í sumar. Sagan er ekki með okkur en við erum á uppleið. Sjáum til hvort okkur tekst að kalla það fram á morgun,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München í kvöld eftir fjögurra marka tap fyrir Íslandi, 25:21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert