Í Þýskalandi þarf ekki að kaupa fólk á völlinn

Þjóðverjar mæta vel á leiki heimsmeistaramótsins.
Þjóðverjar mæta vel á leiki heimsmeistaramótsins. AFP

Síðustu dagar HM í handknattleik karla eru að renna upp. Allt tekur enda um síðir. Jafnvel heimsmeistaramót í Mekka handboltans þar sem 9.000 Þjóðverjar mæta á leik Rússa og Makedóníumanna rétt eftir hádegi á laugardegi og 2.000 sækja viðureign Serbíu og Barein.

Svo eru Íslendingar hissa að Þjóðverjar séu fyrir lifandis löngu búnir að kaupa hátt í 20 þúsund aðgöngumiða á fyrsta leik Þjóðverja í milliriðlakeppninni. Viðureign sem óvart var við Íslendinga sem skipuleggja ferðalög landa á milli með sólarhrings fyrirvara.

Í Þýskalandi þarf ekki að kaupa fólk eða hreinlega að skylda það til að vera á meðal áhorfenda á leikjum á heimsmeistaramóti eins og í Katar fyrir fjórum árum.

Víða í Þýskalandi er mikill áhugi á handknattleik og það jafnvel þótt ekki sé handboltalið í bænum eða í borginni. Það sýndi sig í München þar sem íslenska landsliðið lék í riðlakeppninni. Í München hefur ekki verið karlalið í efstu deild í aldarfjórðung eða síðan TSV Milbertshofen varð gjaldþrota. Það kom ekki í veg fyrir að 9 til 12 þúsund áhorfendur voru á hverjum leik íslenska landsliðsins í Ólympíuhöllinni.

Kunna að halda stórmót

Víst er að Þjóðverjar kunna að halda stórmót í handbolta. Þeir hafa í gegnum árum byggt upp ákveðinn kúltúr eða umgjörð í kringum handbolta sem helst Danir hafa náð að nálgast. Danir halda mótið nú með Þjóðverjum.

Eftir að HM var haldið þar fyrir 12 árum sögðu margir að HM í handbolta ætti alltaf að vera í Þýskalandi. Sú skoðun hefur ekki breyst við þetta mót sem nú stendur yfir norðan og sunnan megin við Slésvík-Holtsetaland þótt ég hafi enn aðeins reynslu sunnan megin frá.

Grein Ívars Benediktssonar frá Köln má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert