Ummælin um Aron byggð á misskilningi

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona í Meistaradeildinni á dögunum.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona í Meistaradeildinni á dögunum. Ljósmynd/Barcelona

Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna ummæla sem Tomas Svensson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, lét hafa eftir sér í sænskum fjölmiðlum.

Vísir.is fjallaði um ummæli Svenssons sem voru á þá leið að þjálfarar íslenska liðsins hefðu ekki fengið að skoða Aron Pálmarsson, fyrirliða liðsins, í aðdraganda HM.

Aron dró sig úr íslenska landsliðshópnum í byrjun janúar vegna hnémeiðsla en hann var í eldlínunni með Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar milli jóla og nýárs.

Í tilkynningu frá HSÍ 2. janúar segir: „Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði hefur þurft að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla á hné. Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar.“

„Vegna fréttar á Vísir.is þar sem vitnað er í ummæli Tomas Svenssons um meiðsli Arons Pálmarssonar vill HSÍ koma eftirfarandi á framfæri,“ segir í tilkynningu HSÍ.

„Aron var sannarlega skoðaður af læknum landsliðsins eins og fram kemur í tilkynningu HSÍ frá 2. janúar sl. og var staðfest að hann væri meiddur á hné og óleikfær. Ummæli Tomas eru byggð á miskilningi og hefur hann beðist afsökunar.

HSÍ hefur verið í ágætis samskiptum við Barcelona vegna meiðslanna og harmar ummælin,“ segir í tilkynningu HSÍ.

mbl.is