Frakkar lögðu heimamenn og fara í úrslit

Max Darj sækir að Ludovic Fabregas, sem skoraði sex mörk …
Max Darj sækir að Ludovic Fabregas, sem skoraði sex mörk fyrir Frakka í kvöld. AFP/Jonathan Nackstrand

Frakkland tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik HM 2023, sem fer fram í Svíþjóð og Póllandi um þessar mundir, með því að leggja heimamenn í Svíþjóð að velli, 31:26, í undanúrslitum mótsins í Stokkhólmi.

Jafnræði var með liðunum framan af í fyrri hálfleik en um hann miðjan hófu Frakkar að sigla fram úr og náðu mest fimm marka forystu, 14:9 og 15:10.

Svíar löguðu aðeins stöðuna en munurinn var þó fjögur mörk í hálfleik, 16:12.

Í síðari hálfleik voru Frakkar áfram við stjórn og náðu þrívegis fimm marka forystu.

Svíar gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 24:22.

Ekki tókst heimamönnum að fylgja góðum kafla eftir þar sem Frakkar náðu enn á ný fimm marka forystu, bættu svo um betur og komust sex mörkum yfir, 30:24.

Sigldu Frakkar að lokum öruggum fimm marka sigri í höfn.

Markahæstur hjá Frakklandi var Ludovic Fabregas með sex mörk. Skammt undan voru Kentin Mahe og Dika Mem, báðir með fimm mörk.

Eric Johansson var markahæstur í liði Svíþjóðar með fimm mörk.

Frakkar mæta Dönum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Stokkhólmi á sunnudaginn.

Svíar mæta Spánverjum í leik um þriðja sætið, en sá leikur fer einnig fram á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert