Sögulegt mark sameiginlegs liðs Kóreu

Sameiginlegt lið Kóreu fagnar fyrsta marki sínu á Vetrarólympíuleikunum.
Sameiginlegt lið Kóreu fagnar fyrsta marki sínu á Vetrarólympíuleikunum. AFP

Sameiginlegt lið Norður- og Suður-Kóreu í íshokkíi kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang hefur vakið gríðarlega athygli og afrekaði sannarlega nokkuð sögulegt í dag.

Kórea spilaði sinn þriðja og síðasta leik í riðlinum á leikunum í dag, en liðið hafði fengið tvo skelli í keppn­inni til þessa og tapað 8:0 fyr­ir bæði Sviss og Svíþjóð. Í dag mættust Kórea og Japan og þar fór Japan með 4:1-sigur af hólmi.

Staðan var orðin 2:0 fyrir Japan eftir fjórar mínútur, en um miðjan annan leikhluta minnkaði Kórea muninn með sögulegu marki; því fyrsta sem sameiginlega liðið skorar. Það var hin suðurkóreska Randi Heesoo Griffin sem skoraði markið sögulega, sem dugði þó ekki til því Japan skoraði tvö mörk til viðbótar og vann 4:1.

Um er að ræða fyrsta skiptið sem þjóðirn­ar tefla fram sam­einuðu liði. Full­trú­ar beggja þjóða ákváðu þetta fyr­ir leik­ana í viðræðum sem fram fóru á hlut­lausu svæði sem skil­ur á milli land­anna tveggja í von um aukna þíðu þeirra á milli.

Þögn þeirra norðurkóresku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert