Frábært að ná sigurmarkinu

Elvar Jósteinsson úr SA sækir að Hjalta Jóhannssyni, leikmanni Esju, …
Elvar Jósteinsson úr SA sækir að Hjalta Jóhannssyni, leikmanni Esju, í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum tveimur mörkum yfir og þeir ná að jafna og tryggja sér framlengingu. Við gerðum vel manni færri í framlengingunni og náðum svo að skora fjórum sekúndum fyrir leikslok. Það er frábært að ná þessu sigurmarki,“ sagði Jussi Sipponen, spilandi þjálfari SA, eftir 5:4-sigur á Esju í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí. 

SA er komið í 2:0 í einvíginu og nægir sigur á heimavelli á laugardaginn kemur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. SA var með 4:2-forystu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, en þá náði Esja að skora tvö mörk og tryggja sér framlengingu. 

„Þetta er fljótt að breytast í svona leikjum. Við fengum brottvísun og þeir ná að skora einni og hálfri mínútu fyrir leikslok og þá verða menn svolítið stressaðir. Það gerðist ekkert sérstakt, stundum er hokkíið svona.“

Mörg mörk voru skoruð á meðan liðin voru með menn í skammarkróknum. 

„Bæði lið eru nógu góð til að nýta sér liðsmuninn og skora gegn liðum sem eru manni færri. Þetta er úrslitaeinvígið og liðin þekkja hvort annað mjög vel enda búin að mætast tíu sinnum í vetur.“

Sipponen skoraði sjálfur þrjú mörk í leiknum. Hann hrósaði Rúnari Frey Rúnarssyni fyrir sinn þátt í mörkunum. 

„Rúnar Freyr Rúnarsson stendur fyrir framan markmanninn svo hann sjái ekki þegar ég tek skotin. Það hjálpar og þess vegna endar þetta í netinu,“ sagði Sipponen að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka