Ísland leikur mikilvægan leik í dag

Ísland á mikilvægan leik við Belga í dag.
Ísland á mikilvægan leik við Belga í dag. Ljósmynd/​Sor­in Pana

Ísland mætir Belgíu í þriðja leik sínum í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karlalandsliða í íshokkí í Tilburg í Hollandi kl. 14:30. Leikurinn er mjög mikilvægur enda bæði lið án stiga eftir fyrstu tvo leikina. 

Ísland tapaði fyrsta leik sínum fyrir Ástralíu, 3:0, og fékk svo 11:1-skell á móti heimamönnum. Á sama tíma tapaði Belgía 4:1 á móti Serbíu og 6:0 á móti Ástralíu. Neðsta lið riðilsins fellur og hvert lið leikur aðeins fimm leiki. Tapliðið í dag er því komið í ákveðna fallhættu. 

Íslenskum landsliðum hefur ekki gengið vel á móti Belgíu í gegnum tíðina og í sex viðureignum þjóðanna hafa Belgar unnið fimm og Ísland aðeins einu sinni. Ísland fékk algjöran skell á móti Belgum í Galati í Rúmeníu í fyrra og tapaði 9:3. Robin Hedström, Andri Már Mikaelsson og Pétur Maackm skoruðu mörk Íslands en Andri Már er eini markaskorarinn sem er einnig í Tilburg. 

Eini íslenski sigurinn á Belgum kom árið 2015 þegar mótið fór fram á Íslandi. Þá vann Ísland 3:0-sigur og öll mörkin komu í 3. leikhluta. Þá skoruðu Björn Róbert Sigurðarson, Emil Alengard og Jón Benedikt Gíslason mörk Íslands. Enginn af þeim er á mótinu í Tilburg. 

Belgía og Ísland enduðu bæði með sex stig í Rúmeníu í fyrra og í 4. og 5. sæti riðilsins. Mitch Morgan skoraði níu mörk fyrir Belga á mótinu, en hann er ekki með breyttu liði Belga í ár. Belgar virðast ekki eins sterkir nú og oft áður og gætu möguleikar Íslands á öðrum sigri sínum á belgísku liði verið fínir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert