„Þetta er svo skemmtilegt“

Sigurður Sigurðsson.
Sigurður Sigurðsson. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Sigurður Sveinn Sigurðsson var heiðraður á Akureyri á laugardaginn fyrir keppnisferil sinn í íshokkíi með Skautafélagi Akureyrar. Sá ferill á sér líklega vart hliðstæðu í hópíþróttum hérlendis.

Sigurður lagði skautana á hilluna eftir að hafa fagnað Íslandsmeistaratitli með SA síðasta vor. Treyja númer 13 var dregin upp í rjáfur í Skautahöllinni á Akureyri að erlendum sið, honum til heiðurs. Sá siður að heiðra dygga liðsmenn með þeim hætti hefur ekki skilað sér til Íslands í miklum mæli en er þó ekki óþekktur hérlendis. Siðurinn er algengastur í körfuknattleik og íshokkíi.

Á treyjunni stendur einfaldlega gælunafnið Siggi Sig sem líklega er orðið skrásett vörumerki í Eyjafirðinum. Á heimasíðu SA stendur að enginn geti spilað í treyju 13 í meistaraflokki karla hjá SA héðan í frá. Sjálfur tók Sigurður ekki svo djúpt í árinni þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum. „Eins og ég skil þetta þarf ég að gefa leyfi fyrir því að spilað sé í treyjunni. Ef einhver leikmaður í meistaraflokki karla hefur áhuga á að vera númer 13 þá getur viðkomandi athugað hvort hann fái leyfi fyrir því,“ sagði Sigurður en á heimasíðu SA stendur jafnframt að mögulega yrði gerð undantekning ef/þegar sonur Sigurðar skilar sér upp í meistaraflokk en hann er 13 ára. „Já, sú staða gæti komið upp þar sem sonur minn spilar íshokkí og er númer 13. En til að hann fái leyfi hjá mér þá þarf hann alla vega að taka ansi oft til í herberginu sínu áður en af því getur orðið.“

Hjónin hættu á sama tíma

Tvö af börnum Sigurðar spila í treyju númer 13. Sá yngri sýnir sjálfstæði og spilar í treyju númer 2 eins og móðurbróðir sinn, Orri Blöndal. Eiginkona Sigurðar, Guðrún Blöndal, spilaði sjálf í treyju númer 13 fyrir SA og íslenska landsliðið. Hún hætti einnig að spila síðasta vor. Voru það samantekin ráð hjá hjónunum að hætta á sama tíma? „Það var frekar tilviljun heldur en eitthvað annað. Á bak við svona langan feril er oft þolinmóð kona en við höfum verið saman síðan 1995. Ef til vill varð það mér til happs að ég sleit ýmislegt í öxlinni síðasta vetur. Annars væri ég kannski ennþá að reyna að hjálpa til á ísnum. Álagið á líkamann er mikið og þetta var orðið sárt. Erfitt að sofa og ýmislegt sem fylgir þessu eins og þú hefur örugglega heyrt frá gömlum íþróttamönnum. Þá er tímabært að hætta,“ sagði Siggi en segir það ekki vera að ástæðulausu að margir leikmenn hjá SA endast lengi.

Sjá allt viðtalið við Sigurð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert